Erlent

SAS mismunar farþegum eftir kynþætti

Sérstök kvörtunarnefnd í málefnum minnihlutahópa í Danmörku hefur komist að þeirri niðurstöðu að norræna flugfélagið SAS mismuni farþegum eftir menningarlegum bakgrunni þeirra. Félagið meinar fólki með ónorræn og óengilsaxnesk nöfn að nýta sér sjálfsafgreiðslu við innritun.

Það var farþegi sem kærði félagið til kvörtunarnefndarinnar í október í fyrra eftir að honum var meinað að nýta sér sjálfsafgreiðslu við innritun. Þess í stað var honum sagt að hann yrði að láta innrita sig í flugið á hefðbundinn hátt.  Var honum ennfremur sagt að það væri stefna SAS að leyfa einstaklingum með framandleg nöfn ekki að nýta sér sjálfsafgreiðslu við innritun.

Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að félagið hafi einnig verið staðið að því að flokka farþega niður eftir kynþætti og menningarlegum bakgrunni. Sérstaklega þótti áberandi hversu oft farþegar með ónorræn nöfn og dökkir á hörund voru beðnir um að sýna skilríki og flugmiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×