Erlent

Tyrkir segjast leita allra leiða til að forðast innrás

Tyrknesk yfirvöld hafa lýst því yfir að þau hyggist leita allra frirðsamlegra leiða til þess að koma í veg fyrir árásir kúrdískra aðskilnaðarsinna, áður en gripið verður til hernaðaraðgerða.

Uppreisnarmenn úr röðum PKK hafast við í norðurhéruðum Íraks og hafa gert árásir á Tyrkneska hermenn þaðan. Utanríkisráðherra landsins lýsti þessu yfir áður en hann hélt til Bagdad til viðræðna við háttsetta írakska embættismenn, þeirra á meðal er forsætisráðherrann Nouri Maliki. Bandaríkjamenn hafa eindregið lagt til við írösk yfirvöld að þau grípi til aðgerða gegn Kúrdunum til þess að koma í veg fyrir innrás Tyrkja.

Erindreki Tyrkja hjá Sameinuðu Þjóðunum hefur bent á að þrátt fyrir að reynt verði að leysa málið á diplómatískum nótum þá sé þolinmæði Tyrkja ekki óendanleg. PKK lýsti því yfir í gær að þeir hefðu handsamað nokkra tyrkneska hermenn og fellt tólf í umsátri. Tyrkir hafa viðurkennt árásina en segjast aðeins sakna átta hermanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×