Erlent

Neyðarástand í Kaliforníu

Sigfríður Björnsdóttir
Sigfríður Björnsdóttir
Gífurlegir skógar-­eldar geisa nú í Kaliforníu­ríki í Bandaríkjunum og hefur Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri lýst yfir neyðarástandi í sjö sýslum í suðurhluta ríkisins.

Tæplega 405 ferkílómetrar landsvæðis hafa brunnið í skógar­eldunum í San Diego-sýslu og þurftu 250.000 manns að yfirgefa heimili sín í gær.

„Það eru fleiri hús að brenna en við höfum mannskap og búnað til að geta bjargað," sagði slökkviliðsstjórinn í San Diego, Lisa Blake. „Margir eiga eftir að tapa heimilum sínum í dag."

Talsvert var um að slökkviliðsmenn ættu í vandræðum með að berjast við elda þar sem þeir voru uppteknir við að bjarga fólki sem hafði neitað að yfirgefa heimili sín, að sögn Bill Metcalf, yfirmanns eldvarna í norðurhluta San Diego-sýslu. „Þetta fólk vildi bara ekki fara eða brást of seint við. Og þeir sem taka slíkar ákvarðanir eru í raun að hamla slökkviaðgerðum."

Skógareldarnir berast hratt yfir vegna mikilla vinda, auk þess sem jarðvegur er afar þurr eftir methita í sumar. „Vindurinn er óvinur númer eitt núna," sagði Scwharzenegger á blaðamannafundi í gær. Veðurfræðingar spáðu áframhaldandi hvassviðri á svæðinu í dag.

Joel og Jóna Kristbjörg Valdez búa ásamt þremur börnum á hættusvæði í San Diego og voru á förum þegar Fréttablaðið hafði samband í gærdag.

„Við fengum að vita fyrir um tíu mínútum að við þyrftum að rýma húsið okkar. Börnin eru komin út í bíl og við erum núna að safna saman því nauðsynlegasta.," sagði Joel þegar fjölskyldan lagði af stað í gærmorgun í átt að Los Angeles.

„Búist er við að eldurinn nái að ströndinni. San Diego sjálf virðist ekki vera í hættu en ef eldurinn nær að brjótast út í nágrenninu kemst hún líka í hættu," segir Stefán Karl Stefánsson leikari, sem búsettur er nærri hættusvæðunum í San Diego.

„Skógareldarnir hafa gríðarleg áhrif á allt líf í Kaliforníu. Verslunum er lokað, hundruð þúsunda manna eru á flótta og San Diego er umkringd eldum sem eru stjórnlausir. Ein íslensk fjölskylda er byrjuð að pakka að ég veit, en við erum ekki í hættu enn um sinn."

Engar flugvélar komust á loft vegna vindanna og búist var við að herinn yrði kallaður út um eftir­miðdaginn.

Sigfríður Björnsdóttir býr með fjölskyldu sinni í La Jolla í aðeins um fimmtán mínútna fjarlægð frá þeim svæðum sem rýmd hafa verið.

„Okkur er ráðlagt að fylgjast vel með fjölmiðlum, sem fjalla stöðugt um eldana. Ég svaf því lítið í nótt. Það hefur verið mikill reykur og mikil aska í loftinu undanfarið."

Sigfríður segir yfirvöld hafa tilkynnt að eldarnir muni versna og verði að öllum líkindum verri en Cedar-eldarnir sem geisuðu á sama svæði árið 2003, þar sem 1.134 ferkílómetra svæði og 2.232 heimili urðu eldinum að bráð.

Í nágrenni Malibu geisa einnig eldar en að sögn Sigurjóns Sighvatssonar, ræðismanns Íslands í Los Angeles, er talið að aðeins einn Íslendingur búi á því svæði. Ekki náðist í hann um hádegisbil að Kyrrahafstíma í gær, en símasamband liggur víða niðri á svæðinu.

- eb / - sdg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×