Erlent

Átta látnir í fellibylnum

Á myndinni sjást skemmdar götur á John Compton hraðbrautinni í Castries á St. Lucia eftir að fellibylurinn Dean fór yfir eyjuna á föstudaginn. Átta hafa látið lífið í fellibylnum.
Á myndinni sjást skemmdar götur á John Compton hraðbrautinni í Castries á St. Lucia eftir að fellibylurinn Dean fór yfir eyjuna á föstudaginn. Átta hafa látið lífið í fellibylnum. MYND/ap

Að minnsta kosti átta manns hafa látið lífið í fellibylnum Dean á yfirreið hans yfir nokkrar af eyjunum í austanverðu Karíbahafinu síðustu daga. Tjón af völdum fellibylsins er talið nema hundruðum milljónum dollara. Yfirvöld á Kúbu, Haítí, Dómíníkanska-lýðveldinu og fleiri eyjum í Karíbahafinu hafa flutt fleiri þúsundir manna frá ýmsum svæðum á eyjunum: fimmtíu þúsund manns voru til dæmis fluttir frá þremur héruðum á Kúbu. Tíu Íslendingar flúðu frá Cancún til Mexíkóborgar í gær.

Fellibylurinn fór yfir Jamaíka í gærkvöldi á 230 kílómetra hraða á klukkustund. Forsætisráðherra landsins, Portia Simpson Miller, bað eyjarskeggja að vera ekki nærri ströndinni og leita skjóls í þeim þúsund neyðarskýlum sem hafa verið útbúin á eyjunni. „Þetta verður mjög, mjög alvarlegt," sagði Jamaíkabúinn, Lawrence Samuel, í gær þar sem hann keypti neyðarbirgðir í kjörbúð á eyjunni. Flugvöllum á Jamaíka var lokað síðdegis í gær.

 

Fjölskyldur leita skjóls í skóla í Pedernales á Santó Dómingó í gær. Fréttablaðið/ap

Fellibyljamiðstöðin í Miami segir að bylurinn muni ná fimmtu gráðu - fellibylir verða ekki kraftmeiri en það - áður en hann ríður yfir á Jukatánskaga í Mexíkó í kvöld eða á morgun. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Mexíkó.

Flugvöllurinn í Cancún var fullur af ferðamönnum í gær sem vildu komast frá borginni. Eva Sólan, Íslendingur sem var staddur í Cancún í gær, sagði að uppbókað væri í allar flugvélar frá borginni. Líklegt þykir að fellibylurinn muni fara framhjá Cancún. Yfirvöld í landinu fluttu íbúa Mexíkó frá ströndum landsins sem liggja að Karíbahafinu.

Íbúar í Texas í Bandaríkjunum byrjuðu auk þess að búa sig undir komu fellibylsins í gær og voru íbúar við landamæri Mexíkó hvattir til að yfirgefa heimili sín. Íbúar í New Orleans voru einnig byrjaðir að undirbúa brottför frá borginni, minningin um fellibylinn Katrínu er þeim sennilega enn í fersku minni. Vindhraði náði 123 kílómetra hraða á klukkustund í Oklahoma í gær.

Talið er að fellibylurinn muni valda enn frekari skaða áður en yfir líður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×