Erlent

Rice þrýstir á friðarfund Miðausturlanda

Rice á ráðstefnu Ameríkuríkja fyrr á árinu.
Rice á ráðstefnu Ameríkuríkja fyrr á árinu. MYND/AFP

Condoleezza Rice þrýsti á leiðtoga Ísrael og Palestínu í dag um friðarráðstefnu Miðausturlanda þrátt fyrir vaxandi spennu á Gaza. Ráðstefnan er fyrirhuguð í nóvember. Rice er í Ramallah þar sem hún fundar með Mahmoud Abbas leiðtoga Palestínu eftir fund með Shimon Peres forseta Ísraels.

Í gær lýstu Ísraelar því yfir að Gaza-ströndin væri óvinasvæði vegna síendurtekinna eldflaugaárása Hamas-liða á Ísrael þaðan. Abbas forseti og Ban Ki-monn hafa gagnrýnt ákvörðunina sem gæti haft í för með sér að lokað yrði fyrir vatn, eldsneyti og rafmagn til svæðisins.

Hamas-liðar segja ákvörðunina stríðsyfirlýsingu. Ísraelar vilji eyðileggja innviði samfélagsins og raska daglegu lífi Palestínumanna.Ákvörðunin mun styrkja verslunarbann sem nú er í gildi fyrir eina og hálfa milljón manns á Gaza-ströndinni og auka enn á eymd þar.

Fundum Rice er ætlað að einblína á friðarráðstefnuna. Enn er dagskrá fundarins óljós, sem og hverjir taka þátt í henni. Roger Hardy fréttaskýrandi BBC í Miðausturlöndum segir að Bandaríkjunum muni veitast erfitt að fá arabaríki sem hafi engin tengsl við Ísrael að mæta á fundinn, sérstaklega Sádi-Arabíu.

Abbas hefur lagt til að á ráðstefnunni verði gerð drög að samningi um sjálfstætt ríki Palestínu, en Ísraelar streitast gegn því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×