Erlent

Forseta Kosovo sýnt banatilræði

Ibrahim Rugova, forseti Kosovo, komst óskaddaður frá banatilræði í gærmorgun, er öflug sprengja sprakk við bílalest forsetans er hún ók í gegnum miðborg héraðshöfuðborgarinnar Pristina. Einn maður slasaðist nokkuð í sprengingunni. Rugova gat haldið áfram för sinni sem heitið var á fund Javiers Solana, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. Enginn hafði síðdegis í gær lýst ábyrgð á hinu meinta tilræði á hendur sér en talið er að sprengjan hafi verið tendruð með fjarstýringu. "Guði sé lof að ég komst af, einu sinni enn," sagði Rugova. "Því miður eru hér enn öfl sem vilja skapa óstöðugleika í Kosovo." Í fyrra var handsprengju kastað að húsi Rugovas, án þess að skaða neinn. Hann er umdeildur þar sem hann hefur gengið einna lengst Kosovo-Albana í að krefjast fulls sjálfstæðis héraðsins. Kosovo er hluti Serbíu og Svartfjallalands en vonast er til að umræður um framtíðarstöðu héraðsins geti hafist síðar á þessu ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×