Íslenski boltinn

Þrír leikmenn í íslenska boltanum með meira en 3,6 milljónir í laun á mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik FH og Vals í Pepsi Max deild karla í sumar.
Frá leik FH og Vals í Pepsi Max deild karla í sumar. Vísir/Vilhelm
Knattspyrnumenn á Íslandi eru alltaf að fá meira og meira borgað fyrir „áhugamennsku“ sína og Pepsi Max deild karla er á góðri leið með að verða atvinnumannadeild.

Morgunblaðið segir í dag frá niðurstöðum í ítarlegri könnun Leikmannasamtaka Íslands á kjörum og vinnuumhverfi leik­manna í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu á Íslandi og er byggð á svörum 191 leikmanns í deildinni.

Þessi könnun er borin saman við samskonar könnun frá árinu 2016 og það hefur talsvert breyst á þessum þremur árum í deildinni hér heima því laun leikmanna hafa hækkað talsvert.

Stærsti hluti leikmanna sem svaraði þessari könnun sögðust vera með laun á bilinu 242 til 485 þúsund á mánuði en 30 prósent leikmanna merktu við það. Fimmtán prósent leikmanna eru með 485 til 970 þúsund á mánuði, fimm leikmenn sögðust vera að fá 970 til 1.820 þúsund á mánuði, tveir leikmenn eru með 1,8 til 3,6 milljónir á mánuði og þá eru þrír leikmenn í Pepsi Max deild karla 2019 með meira en 3,6 milljónir íslenskra króna í laun á hverjum mánuði.

Leikmenn hafa verið að koma „snemma“ heim úr atvinnumennsku sem gæti haft áhrif á launagreiðslur. 

Morgunblaðið segir frá því til samanburðar að enginn var með meira en 1,8 milljónir í laun á mánuði árið 2016 og þrettán leikmenn í þá Pepsi deildinni fengu 485 til 970 þúsund krónur í mánaðarlaun. Hér sé því augljóslega um risastökk að ræða fyrir launahæstu leikmenn deildarinnar.

Leikmannasamtök Íslands fagna þessari þróun í samtali við Morgunblaðið og segja þetta sýna að hægt sé að vera at­vinnumaður í knattspyrnu á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×