Katrín Ásbjörnsdóttir hefur farið á kostum með Stjörnuliðinu síðan að hún tók við fyrirliðabandi Stjörnuliðsins af Ásgerði Stefaníu Baldursdóttur.
Katrín er markahæsti leikmaður Pepsi-deildar kvenna eftir tvær umferðir og enginn leikmaður hefur heldur gefið fleiri stoðsendingar.
Katrín er með þrjú mörk og tvær stoðsendingar í tveimur leikjum með fyrirliðaband Stjörnuliðsins og Stjarnan hefur fengið sex stig af sex mögulegum og skorað sjö mörk í þeim.
Katrín skoraði tvö mörk í 5-1 sigri á Haukum í fyrstu umferðinni og innsiglaði 2-0 sigur á KR í fyrsta heimaleiknum í annarri umferðinni í gærkvöldi.
Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, gerði Katrínu að fyrirliða Garðabæjarliðsins fyrir þetta tímabil þrátt fyrir að Katrín væri bara á sínu öðru ári hjá félaginu og aðeins búinn að spila tólf deildarleiki samanlagt fyrir Stjörnuna.
Fyrirliðinn Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er farin í barneignafrí og varafyrirliðinn Harpa Þorsteinsdóttir er enn í barneignafríi.
Katrín hefur heldur betur svarað kalli þjálfarans en hún er reynslumikill leikmaður þrátt fyrir að vera bara 25 ára gömul, búin að spila yfir 100 leiki í efstu deild, spila sem atvinnumaður í Noregi og hefur haft betur gegn meiðsladraugnum sem setti mikinn svip á hennar leik framan af ferlinum.
Katrín skoraði 9 mörk í 12 leikjum þegar Stjarnan varð Íslandsmeistari í fyrrasumar en hún var með 12 mörk í 17 leikjum fyrir Þór/KA sumarið 2012 þegar hún varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn. Ferilinn hóf hún hinsvegar í KR.
