Enski boltinn

Lukaku braut ísinn og sökkti Sunderland

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Romelu Lukaku skoraði öll þrjú mörk Everton þegar liðið lagði Sunderland að velli, 0-3, á Ljósvangi í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Lukaku hafði ekki skorað deildarmark síðan í mars en stíflan brast með látum í kvöld.

Staðan var markalaus í hálfleik og þegar klukkutími var liðinn var enn jafnt. Þá tók Lukaku til sinna ráða og skoraði þrennu á tæpum 12 mínútum.

Belginn skoraði fyrsta markið á 60. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Idrissa Gueye. Tveimur mínútum síðar þrumaði hann boltanum í slánna á marki Sunderland.

Lukaku skoraði sitt annað mark á 68. mínútu með skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf Yannicks Bolasie. Þremur mínútum síðar fullkomnaði hann svo þrennuna þegar hann setti boltann framhjá Jordan Pickford í marki Sunderland.

Með sigrinum komst Everton upp í 3. sæti deildarinnar en liðið hefur náð í 10 stig í fyrstu fjórum umferðunum.

Sunderland er hins vegar í miklum vandræðum í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar með einungis eitt stig. Það stefnir því í langan vetur hjá David Moyes og lærisveinum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×