Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Keflavík - Breiðablik 1-1 | Tvö glæsimörk í enn einu jafntefli Blika

Ingvi Þór Sæmundsson á Nettó-vellinum í Keflavík skrifar
vísir/valli
Keflavík og Breiðablik skildu jöfn, 1-1, í 3. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í kvöld.

Leikurinn var lítið fyrir augað ef frá eru talin mörkin tvö sem voru af dýrari gerðinni. Sigurbergur Elísson kom Keflavík yfir með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu á 49. mínútu en Guðjón Pétur Lýðsson jafnaði metin í uppbótartíma, einnig með fallegu skoti beint úr aukaspyrnu.

Bæði lið eru enn án sigurs í Pepsi-deildinni. Keflvíkingar fengu sitt fyrsta stig í kvöld en Blikar eru komnir með þrjú eftir þrjú jafntefli í fyrstu þremur leikjunum en stuðningsmenn Breiðabliks hljóta að vera orðnir langþreyttir á endalausum jafnteflum liðsins. Þeir geta þó ágætlega við unað úr því sem komið var í kvöld.

Fyrri hálfleikur var afar tíðindalítill. Blikarnir voru meira með boltann en héldu honum mestmegnis á hættulitlum stöðum.

Keflvíkingar gáfu gestunum úr Kópavogi ekkert pláss, hvorki fyrir framan né aftan vörnina sína, og fyrir vikið gekk Kópavogsliðinu illa að búa til hættulegar stöður og færi.

Sóknarleikur Keflvíkinga var hins vegar ekki til staðar í fyrri hálfleik. Þeim gekk illa að halda boltanum innan liðsins og voru jafnan fljótir að tapa honum.

Hörður Sveinsson fékk litla hjálp og þjónustu í fremstu víglínu en þriggja manna línan sem spilaði fyrir aftan hann (Sigurbergur, Indriði Áki Þorláksson, Bojan Stefán Ljubicic) hafði lítið til málanna að leggja í fyrri hálfleik

Blikar komust í tvígang nálægt því að skora undir lok fyrri hálfleiks en þá fyrst náðu þeir upp einhverri pressu á vörn Keflavíkur.

Fyrst bjargaði Frans Elvarsson á marklínu frá Ellerti Hreinssyni eftir hornspyrnu Kristins Jónssonar og svo átti Guðjón hættulegt skot sem vindurinn var næstum því búinn að feykja í markið. Richard Arends, markvörður Keflavíkur, var hins vegar vandanum vaxinn og bjargaði.

Seinni hálfleikurinn var ekki nema fjögurra mínútna gamall þegar fyrsta markið kom. Elfar Freyr Helgason braut klaufalega á Herði rétt fyrir utan vítateig. Sigurbergur steig fram og smellti boltanum glæsilega yfir vegginn og í markhornið. Frábært mark og svo sannarlega það sem leikurinn þurfti á að halda.

Blikarnir reyndu að pressa Keflvíkinga eftir markið en gekk illa að opna sterka vörn heimamanna. Kristján Guðmundsson, sem stýrði liði í 200. sinn í efstu deild, stillti upp óhefðbundinni varnarlínu í kvöld en hún stóð sig með miklum ágætum og stöðvaði flestar sóknir gestanna.

Blikarnir skoruðu reyndar tvö mörk í seinni hálfleik sem dæmd voru af vegna rangstöðu en Arnar Grétarsson, þjálfari liðsins, vildi meina að þau hefðu átt að standa í samtali við Vísi eftir leik.

Haraldur Freyr Guðmundsson, fyrirliði Keflavíkur, fékk tvö fín skallafæri eftir hornspyrnur um miðjan seinni hálfleikinn sem ekki nýttust. Það virtist ekki ætla að koma að sök því allt virtist benda til fyrsta sigurs Keflavíkur í deildinni, eða allt þar til Guðjón skoraði stórglæsilegt mark með skoti beint úr aukaspyrnu í uppbótartíma.

Þetta var þriðja mark Guðjóns í sumar en hann hefur komið með beinum hætti að öllum mörkum Blika í deildinni; skorað þrjú og lagt eitt upp.

Í ljósi stöðunnar geta Blikar ágætlega við unað en spilamennska þeirra til þessa í sumar er samt sem áður ekkert í líkingu við það sem þeir sýndu á undirbúningstímabilinu.

Leikmenn sem blómstruðu í vetur, eins og Ellert, Davíð Kristján Ólafsson og Arnþór Ari Atlason, hafa farið hægt af stað og þurfa að bæta frammistöðu sína ætli Blikar sér að breyta einhverjum af þessum jafnteflum í sigra.

Keflvíkingar fengu sem áður segir sitt fyrsta stig og í kvöld og geta tekið ýmislegt jákvætt út úr leiknum. Varnarlínan var traust og vinnusemin í liðinu til fyrirmyndar. Þeir verða hins vegar að bæta sóknarleikinn í opnu spili ætli þeir að hala inn fleiri stig.

Kristján: Erum á uppleið

Kristján Guðmundsson stýrði liði í 200. sinn í efstu deild þegar Keflavík og Breiðablik skildu jöfn, 1-1, á Nettó-vellinum í kvöld. Hann var að vonum ósáttur að fá á sig jöfnunarmark í uppbótartíma sem kom í veg fyrir fyrsta sigur Keflvíkinga í sumar.

"Jú, svona fyrst eftir að þetta gerðist," sagði Kristján.

"En núna þegar maður er aðeins farinn að hugsa um þetta tökum við það jákvæða út úr leiknum. Við fengum stig og stóðum okkur heilt yfir vel. Það sem við lögðum upp fyrir leikinn gekk vel. Við erum á uppleið," sagði þjálfarinn ennfremur.

Kristján stillti upp nokkuð óhefðbundinni varnarlínu í kvöld og var sáttur með hvernig hún spilaði.

"Það hafa verið óþarflega margar breytingar á öftustu línu hjá okkur. Við viljum halda varnarlínunni fastri en það hefur ekki gengið.

"Við þurftum að hlaupa okkur aðeins saman í byrjun leiksins en varnarleikurinn var fínn," sagði Kristján en hvernig fannst honum sóknarleikur Keflvíkinga ganga í kvöld?

"Við vorum að gera meira sóknarlega en í síðustu leikjum. Við vorum duglegir að fara á bakverðina þeirra og koma boltanum fyrir sem var ágætt. Svo fengum við tækifæri eftir hornspyrnur sem er framför. Við höfum ekki verið að ógna mikið eftir horn en það styttist í að við skorum eftir slík atriði," sagði Kristján að lokum.

Arnar: Tvö lögleg mörk voru tekin af okkur

Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, var nokkuð sáttur með spilamennsku sinna manna í jafnteflinu við Keflavík í kvöld.

"Úr því sem komið var er þetta unnið stig," sagði Arnar.

"En ef maður lítur yfir leikinn í heild sinni fannst mér við eiga eitthvað skilið úr leiknum. Og líka í ljósi þess að við skorum tvö lögleg mörk - það er frekar blóðugt.

"Við reyndum að spila fótbolta í seinni hálfleik og setja pressu á þá. Auðvitað voru aðstæður erfiðar en ég er ánægður með það sem menn voru að reyna.

"Við héldum boltanum niðri, færðum hann milli kanta og vorum að skapa færi sem er ekki auðvelt við þessar aðstæður," sagði Arnar en það blés hressilega í Keflavík í kvöld.

Arnar var ekki alveg sammála því mati blaðamanns að Blikar hefðu skapað sér lítið af færum í kvöld.

"Við skorum tvö mörk þar sem við spilum í gegnum þá og svo fær Arnþór Ari (Atlason) dauðafæri í opnu spili. Við fengum færi en ekki mörg í fyrri hálfleik, þegar við vorum með vindinn í bakið.

"Við vorum meira með boltann en hefðum átt að vera aðeins klókari að skapa meira," sagði Arnar sem var ánægður með frammistöðu Guðmundar Friðrikssonar sem kom inn í Blikaliðið í kvöld í stað Arnórs Sveins Aðalsteinssonar sem er að jafna sig eftir höfuðhögg sem hann fékk gegn KR í síðustu umferð.

Arnar kvaðst einnig sáttur með frammistöðu Atla Sigurjónssonar sem spilaði tæpar 20 mínútur í sínum fyrsta leik fyrir Breiðablik eftir vistaskiptin frá KR.

"Hann var fínn. Hann kom inn á og lagði sig 110% fram. Það er það sem ég er mest ánægður með því ég veit að hann kann að spila fótbolta," sagði Arnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×