Erlent

Segja mögu­legt að yfir 30.000 hafi verið drepin í mót­mælunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Myndir hafa ratað á samfélagsmiðla sem sýna lík liggja í röðum fyrir utan sjúkrahús og líkhús.
Myndir hafa ratað á samfélagsmiðla sem sýna lík liggja í röðum fyrir utan sjúkrahús og líkhús. AP/UGC

Heilbrigðisstarfsmenn og starfsfólk sjúkrahúsa í Íran segja allt að 30 þúsund hafa verið drepna í aðgerðum stjórnvalda gegn mótmælendum í landinu. Yfirvöld hafa gefið út að um 3.000 hafi látist, á meðan mannréttindasamtök segja fjöldann að minnsta kosti yfir 6.000 og þá séu 17.000 dauðsföll til viðbótar til rannsóknar.

Guardian fjallar um grimmilegar aðgerðir stjórnvalda gegn mótmælendum og viðleitni þeirra til að hylma yfir raunverulegan fjölda látinna. Rætt er við lækninn Ahmadi, sem tók á móti sjúklingum utan kerfisins, til að ekki væri hægt að elta þá uppi. 

Í fyrstu var aðallega um að ræða skrámur sem þurfti að sauma en eftir því sem mótmælin urðu háværari fóru áverkarnir að verða alvarlegri. Margir komu með alvarleg stungu- eða skotsár, aðallega á höfði, brjóstkassa eða kynfærum. Yfir 40 voru drepnir í smábænum hans.

Ahmadi setti sig í samband við yfir 80 heilbrigðisstarfsmenn í tólf af 31 héruðum Íran. Eftir að hafa borið saman bækur sínar áætla þeir að mögulega hafi yfir 30.000 verið drepnir. Vitnisburðir starfsmanna sjúkrahúsa, líkhúsa og grafreita benda til þess að yfirvöld hafi kerfisbundið reynt að fela raunverulegt umfang ofbeldisins, þar sem kældir flutningabílar og fjöldagrafir koma við sögu. 

Þá eru vísbendingar uppi um að útsendarar yfirvalda hafi farið á milli sjúkrastofnana og myrt einstaklinga sem höfðu leitað sér læknisaðstoðar. Fjöldi líka hafi fundist þar sem viðkomandi virðast hafa verið undir læknishöndum, til dæmis með öndunarbúnað eða lyfjabrunna á sér, þegar þeir voru skotnir á stuttu færi.

Hér má finna umfjöllun Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×