Erlent

Verði að eignast þetta „stóra fal­lega stykki af ís“

Elín Margrét Böðvarsdóttir, Samúel Karl Ólason og Rafn Ágúst Ragnarsson skrifa
Donald Trump Bandaríkjaforseti flutti langa ræðu í Davos í dag þar sem hann fór víða yfir sviðið eins og það blasir við honum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti flutti langa ræðu í Davos í dag þar sem hann fór víða yfir sviðið eins og það blasir við honum. AP/Gian Ehrenzeller

Donald Trump Bandaríkjaforseti fór um víðan völl í ræðu sinni í Davos í dag. Hann ítrekaði enn og aftur að Bandaríkin „verði“ að eignast Grænland og að hann kalli eftir „tafarlausum viðræðum“ um kaup Bandaríkjanna á Grænlandi. Hann hyggist þó ekki beita til þess valdi. Alla veganna í tvígang virðist sem Trump hafi ruglast á nöfnum Íslands og Grænlands.

Fjöldi leiðtoga er saman kominn í Davos í Sviss á ráðstefnu World Economic Forum og ríkti þó nokkur spenna fyrir ræðu Bandaríkjaforseta. Segja má að ráðstefnan hafi meðal annars farið fram í skugga hótana Trump-stjórnarinnar gagnvart Grænlandi.

Evrópa sé á rangri leið en Bandaríkin á blússandi siglingu

Segja má að slæm framkoma heimsins í sinn garð og garð Bandaríkjanna hafi verið eins konar rauður þráður í gegnum ræðuna, einkum þeirra sem annars hafa verið bandamenn Bandaríkjanna. Trump nefndi bæði Rússland og Kína í ræðunni, en ekki á jafn gagnrýnum nótum og önnur ríki á borð við Kanada, Danmörku og önnur ríki.

Trump fór jafnframt fögrum orðum um eigin aðgerðir síðan hann tók aftur við embætti. 

Hann vill meina að hann hafi snúið við efnahagi landsins og að allt horfi nú til betri vegar enda hafi hann tekið við „hrikalegu búi“ frá Biden-stjórninni. Þá gagnrýndi hann Evrópu og leiðtoga álfunnar sem hann segir vera á rangri leið, og hjó fast gegn uppbyggingu grænnar orku. 

Önnur NATO-ríki hafi ekki staðið sig í að fjármaga öryggis- og varnarmál sem Bandaríkin hafi borið uppi „án þess að fá neitt í staðinn.“ 

Vill fá Grænland „til baka“

Þá fullyrti hann að Bandaríkin hafi „gefið Danmörku Grænland til baka“ eftir síðari heimsstyrjöld og að það hafi verið mistök. Þá sögutúlkun er ekki víst að sérfræðingar geti fallist á, þótt Bandaríkin hafi vissulega byggt upp herstöðvar á Grænlandi á grundvelli varnarsamnings við Danmörku.

Trump sagði Dani vera vanþakkláta fyrir það sem Bandaríkin hafi gert fyrir öryggi landsins og kvaðst enn staðráðinn í að „ná Grænlandi aftur“. 

Hann hafi þó ekki í hyggju að beita valdi, heldur vilji gera viðskiptadíl um kaup landans. 

Í nokkur skipti virðist sem Trump hafi ruglast á nöfnum Íslands og Grænlands.

„Ég er að hjálpa NATO. Og þangað til fyrir nokkrum dögum, þegar ég sagði þeim frá Íslandi, þá elskuðu þau mig. Þau kölluðu mig „pabba“ síðast,“ sagði Trump, sem vísar þar væntanlega til ummæla sem Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO lét falla á síðasta ári. Ætla má að nafnaruglingurinn sé til kominn vegna þess að Trump talar ítrekað um Grænland sem „land úr ís“ eða „ísklump“ eða annað á þá leið.

Gerði Carney og Macron að skotspónum

Hann skaut einnig á Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, sem flutti ræðu í Davos í gær sem vakið hefur mikla athygli en þar gagnrýnir hann meðal annars stórvaldapólitík Bandaríkjaforseta. Trump sagðist hafa verið að hlusta og sagði Marc að sýna meira þakklæti. Loftvarnakerfi „gullhjúpsins“ svokallaða sem hann hyggist setja upp á Grænlandi og víðar muni einnig tryggja öryggi Kanada.

Forsetanum virtist ekkert óviðkomandi í ræðu sinni, en „fallegu sólgleraugun“ sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti bar á ráðstefnunni í gær, bar meðal annars á góma. „Hvað í andskotanum gerðist?“ spurði Trump, um leið og hann hélt áfram að tala um Macron og lyfjamarkaðinn sem hann segir að Frakkar hafi haft slæm áhrif á í Bandaríkjunum.

Vék stuttlega að Venesúela, Úkraínu og Ísrael

Trump fjallaði stutt um Venesúela og sagði meðal annars að ríkið hefði verið í mjög slæmri stöðu lengi. Nú væri allt að skána og að Bandaríkin myndu selja olíu fyrir ríkið. Venesúela myndi hagnast eins og aldrei fyrr og þakkaði hann stjórnvöldum þar fyrir að starfa með þeim.

Hann sagði þó að það hefði ekki verið svo fyrr en eftir að hann gerði árás á landið og sendi hermenn til að nema Nicolás Maduro, fyrrverandi forseta, á brott. Eftir það hefðu stjórnvöld verið ólm í að semja við hann. „Fleiri lönd ættu að gera það,“ sagði Trump.

Hann vék jafnframt stuttlega að stríðinu í Úkraínu og sagðist hafa reynt að binda endi á það stríð, þrátt fyrir mikla landfræðilega fjarlægð Bandaríkjanna frá átökunum. Hann hafi talað við Pútín sem hann haldi að vilji semja, en líka við Selenskí sem hann telji einnig að vilji semja. Hann ætli að ræða við Selenskí síðar í dag. Það gangi ekki lengur að fólk sé að deyja.

Hann fagnaði jafnframt því sem hann hafi gert fyrir Ísrael í Mið-Austurlöndum, og heimtaði að „Bibi“ Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hætti að eigna sér heiðurinn af loftvarnakerfi Ísraels. Það væri Bandaríkjamönnum að þakka. Trump talaði þó lítið sem ekkert um stöðu Palestínumanna, hvorki á Gasa né Vesturbakkanum.

Líkt og áður segir kom Trump víða við í ræðu sinni sem ekki verður allt rakið hér, en ræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×