Erlent

Höfuð­stöðvar UNRWA í Jerúsalem rifnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stórar vinnuvélar eru á staðnum og vinna að því að rífa niður allt sem áður stóð innan höfuðstöðva UNRWA.
Stórar vinnuvélar eru á staðnum og vinna að því að rífa niður allt sem áður stóð innan höfuðstöðva UNRWA. Getty/Faiz Abu Rmeleh

Höfuðstöðvar Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) í Jerúsalem hafa verið rifnar niður. Framkvæmdastjóri UNRWA á Vesturbakkanum segir að samtökunum hafi verið gert viðvart um að framkvæmdaaðilar og lögregla hefðu mætt á vettvang í morgun til að hefja störf. 

Höfuðstöðvarnar höfðu ekki verið notaðar í um það bil ár, ekki síst vegna hótana og ógnana, en að sögn Rolad Friedrich voru öryggisstarfsmenn sem höfðu verið ráðið til að gæta þeirra reknir burtu í morgun. Hann sagði í samtali við Guardian að yfirvöld hefðu einnig farið inn og lagt hald á búnað áður en niðurrif hófst.

Ísraelski fáninn hefur verið dreginn að húni á staðnum og þá mættu nokkrir stjórnmálamenn á vettvang til að fagna áfanganum. Öryggismálaráðherrann Itamar Ben-Gvir sagði um að ræða „sögulegan dag“.

Stjórnvöld í Ísrael hafa löngum sakað starfsmenn UNRWA um samstarf og stuðning við Hamas og bönnuðu stofnuninni að starfa í Ísrael í fyrra. Formlega hefur stofnunin það á höndum að sjá 2,5 milljónum Palestínumanna á Gasa, Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem fyrir aðstoð, auk þess sem þau starfa einnig í þágu yfir þriggja milljóna flóttamanna í Sýrlandi, Jórdaníu og Líbanon.

Samkvæmt UNRWA hafa 382 starfsmenn stofnunarinnar látist í árásum Ísraels á Gasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×