Erlent

Vopna­hlé Trumps hélt í nokkrar klukku­stundir

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Fjöldi fólks yfirgaf heimili sín eftir að átök brutust út að nýju á landamærunum i morgun. Myndin er tekin í Koh Kong-héraði í Kambódíu.
Fjöldi fólks yfirgaf heimili sín eftir að átök brutust út að nýju á landamærunum i morgun. Myndin er tekin í Koh Kong-héraði í Kambódíu. EPA

Átök brutust út milli taílenskra og kambódískra hersveita á landamærum landanna tveggja snemma í morgun, nokkrum klukkustundum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði vopnahléssamkomulag ríkjanna í höfn. 

Sprengjum og fallbyssuskotum rigndi beggja vegna landamæranna í morgun. Varnarmálaráðuneyti Kambódíu segir Taílendinga hafa skotið á hótel og brú og taílensk stjórnvöld segja fjölda óbreyttra borgara særða eftir eldflaugaárás.

Minnst 21 hefur fallið og 700 þúsund manns flúið heimili sín eftir að átökin brutust út að nýju í vikunni.

Sjá einnig: Átökin magnast á landamærum Kambódíu og Taílands

Fyrr í vikunni sagðist Trump geta bundið enda á átökin með einu símtali. Í gærkvöldi ræddi hann við forsætisráðherra beggja landanna og sagði í samfélagsmiðlafærslu í kjölfarið að báðar hliðar hefðu samþykkt vopnahlé frá og með kvöldinu. Samkomulagið væri það sama og náðist í október þegar vopnahlé vegna átakanna tók gildi.

Hvorugur forsætisráðherranna sagðist þó eftir viðtalið hafa samþykkt vopnahlé.

Anutin Charnvirakul forsætisráðherra Taílands sagði í samfélagsmiðlafærslu að hernaðaraðgerðir héldu áfram við landamærin þar til íbúum yrði ekki lengur ógnað. Hann segist hafa gert Trump skýrt að vopnahlé yrði ekki möguleiki fyrr en Kambódíumenn hörfuðu frá landamærunum. 

Forsætisráðherra Kambódíu sagði nauðsynlegt að verja fullveldi ríkisins. 

Ekkert bendir til þess að Trump hafi hótað að leggja tolla á ríkin tvö í vopnahlésviðræðum, líkt og var gert í átökunum í júlí, að því er kemur fram í umfjöllun BBC.


Tengdar fréttir

Ætla að gera út af við hernaðargetu Kambódíu

Anutin Charnvirakul, forsætisráðherra Taílands, segir að ekki standi til að hefja viðræður við ráðamenn í Kambódíu að svo stöddu. Það verði ekki gert fyrr en Kambódíumenn verði við kröfum Taílendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×