Íslenski boltinn

Óli Jó kallar ráðninguna á Jóa Kalla al­gjört bull

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Jóhannesson er ósáttur við þá meðferð sem Heimir Guðjónsson fékk hjá FH.
Ólafur Jóhannesson er ósáttur við þá meðferð sem Heimir Guðjónsson fékk hjá FH. Vísir/Hulda Margrét

Ólafur Jóhannesson, margfaldur meistaraþjálfari og guðfaðir gullaldarliðs FH-inga, er ekki hrifinn af þeirri ákvörðun síns gamla félags að láta Heimi Guðjónsson fara og ráða frekar Jóhannes Karl Guðjónsson í starfið.

„Ég skil þessa ákvörðun engan veginn, held þetta sé algjört bull. Heimir er búinn að vinna frábært starf, eins og hann hefur alltaf gert og það eru allir ánægðir með hann, fólkið er ánægt með hann og leikmennirnir eru ánægðir,“ sagði Ólafur í viðtali í Chess After Dark.

Viðtal við nýja þjálfarann var heldur ekki til að breyta neinu í afstöðu Ólafs.

„Mér fannst áhugavert viðtalið við nýja þjálfarann hjá FH, fannst það mjög skrautlegt og sérkennilegt. Hann fór í þessa „mögnuðu“ tölvu (tölfræðigrunninn) og taldi allt upp sem FH gerði illa, „possession“, xG og allan andskotann. Mér fannst hann eiginlega hafa drullað yfir alla fyrrverandi þjálfara FH, fannst það með ólíkindum,“ segir Ólafur. 

Ólafur segir að það verði örugglega vitnað reglulega í þetta viðtal gangi illa hjá FH-liðinu í Bestu deildinni næsta sumar.

„Það verður auðvelt að taka þetta viðtal á næsta ári og bera það saman við nýjustu tölur,“ segir Ólafur sem var auðvitað þjálfari Heimis á lokaárum hans á ferlinum og Heimir varð svo aðstoðarmaður hans.

Heimir tók við sem þjálfari FH af Ólafi eftir tímabilið 2007 og gerði FH fimm sinnum að Íslandsmeisturum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×