Erlent

Ætlar sér að koma böndum á sjón­varps­stöðvar

Samúel Karl Ólason skrifar
Brendan Carr, yfirmaður Fjarskiptastofnunnar Bandaríkjanna, eða FCC.
Brendan Carr, yfirmaður Fjarskiptastofnunnar Bandaríkjanna, eða FCC. AP/Andres Kudacki

Þó Jimmy Kimmel sé snúinn aftur í sjónvarpið vestanhafs er Brendan Carr, yfirmaður Fjarskiptastofnunnar Bandaríkjanna (FCC), ekki hættur að reyna að þagga niður í fjölmiðlum. Hann ætlar sér að berjast gegn því sem hann sér sem frjálslynda slagsíðu í fjölmiðlum.

Undanfarna daga hefur Carr gefið til kynna að hann muni grípa til frekari aðgerða gegn sjónvarpsstöðvum og meðal annars hefja rannsókn gagnvart þættinum The View á ABC. Þá segist hann ætla að auka möguleika forsvarsmanna héraðsstöðva til að hafna efni frá stórum systurstöðvum.

Sjá einnig: Kimmel snéri aftur, Trump til mikillar óánægju

Samkvæmt New York Times sagði Carr á ráðstefnu í vikunni að Demókratar dreifðu ósannindum um störf hans og FCC. Hann myndi halda áfram að berjast fyrir því að bandarískar sjónvarpsstöðvar störfuðu í „þágu almennings“ og ef fólki væri illa við það ætti það að fá þingið til að breyta lögunum.

NYT segir, eftir viðtöl við tíu núverandi og fyrrverandi starfsmenn FCC, að Carr sé staðráðinn í að umbreyta FCC vegna þeirrar trúar hans að „frjálslynd“ tæknifyrirtæki og fjölmiðlar hafa þaggað niður í íhaldsmönnum í Bandaríkjunum. Undir hans stjórn á stofnunin að standa vörð um raddir íhaldsmanna og vill hann sérstaklega auka völd FCC til að segja til um hvað megi sýna og hvað megi ekki sýna í sjónvarpi.

Með það í huga hefur Carr skipað starfsmönnum sínum að skoða ýmsa þætti og útsendingar frá aðdraganda forsetakosninganna í fyrra. Þáttur Saturday Night Live, þar sem Kamala Harris, mótframbjóðandi Trumps, var gestur er sagður til rannsóknar.

Carr er einnig að láta rannsaka PBS og NPR og hefur varað við því að hann geti staðið í vegi samruna fyrirtækja sem hann segir að gæti ógnað sjálfstæði héraðsstöðva.

Eins og frægt er hefur hann einnig hótað því að svipta sjónvarpsstöðvar útsendingarleyfi, þyki honum umfjöllun þeirra eða þættir ekki við hæfi.

Hótaði ABC og systurstöðvum

Í þætti sínum sem tekinn var upp og sýndur var á mánudaginn í síðustu viku sagði Kimmel að „MAGA-gengið“ legði mikið púður í það að sannfæra heiminn um að morðingi Charlies Kirk væri ekki einn af þeim og reyna að nýta sér dauða mannsins í pólitískum tilgangi.

Inn á milli væru Trump-liðar syrgjandi.

Þá gerði Kimmel einnig grín að því hvernig Trump hefði syrgt Kirk, en þeir þekktust vel, og sýndi myndbönd af forsetanum eftir morðið, þar sem hann talaði um það hve fallegur veislusalurinn sem verið er að byggja við Hvíta húsið yrði.

Margir urðu reiðir yfir þessum ummælum. Seinna í vikunni mætti Carr í hlaðvarp þar sem hann sagði berum orðum að hann myndi mögulega svipta ABC og aðrar sjónvarpsstöðvar sem sýna þátt Kimmels útsendingarleyfi.

Donald Trump, forseti, hefur lengi slegið á svipaða strengi og ítrekað gert það á undanförnum dögum. Hann hefur jafnvel sagt að ólöglegt ætti að vera að gagnrýna hann í sjónvarpi sem háð er útsendingarleyfi hins opinbera.

Hefur lengi starfað innan veggja FCC

Carr þekkir störf FCC og lög varðandi sjónvarpsstöðvar mjög vel. Hann starfaði lengi sem lögmaður í þeim málaflokki, fyrst í einkageiranum og svo fyrir FCC. Trump skipaði hann svo í stjórn stofnunarinnar árið 2017.

Carr, sem er einn höfunda Project 2025 sem er áherslulisti á vegum samtaka sem kallast Heritage Foundation og var skrifaður sem mögulegur leiðarvísir fyrir ríkisstjórn Trumps, hefur sömuleiðis verið gagnrýninn á bandarískar sjónvarpsstöðvar og sagði áður en Trump tók við völdum að undir hans stjórn muni FCC þvinga sjónvarpsstöðvar til að „starfa í þágu almennings“.

Sjá einnig: Þjónkun við Trump? CBS leggur niður Late Show

Eftir ummæli hans í áðurnefndu hlaðvarpi tilkynntu forsvarsmenn fyrirtækjanna Nexstar og Sinclair Broadcasting Group að þeir myndu ekki sýna þátt Kimmels á fjölmörgum héraðsstöðvum þeirra í Bandaríkjunum. Þar á meðal eru margar systurstöðvar ABC.

Forsvarsmenn Nexstar vinna að umfangsmiklum samruna við fjölmiðlafyrirtækið Tegna fyrir 6,2 milljarða dala. Sá samruni er háður samþykki frá FCC og Carr.

Þá hafa stjórnendur Sinclair lengi verið hliðhollir Trump og kölluðu þeir eftir því að Kimmel bæði fjölskyldu Kirks afsökunar og sendi þeim og Turning Point USA, samtökum sem Kirk stofnaði, peninga.

Þó ABC hafi sett þætti Kimmels aftur í loftið verða þeir ekki sýndir á stöðvum Nexstar og Sinclair.

Í frétt Wall Street Journal er vísað í yfirlýsingu frá Sinclair um að viðræður við ABC eigi sér nú stað um það hvort þættirnir verði sýndir á stöðvum fyrirtækisins. Forsvarsmenn Nexstar hafa sent frá sér sambærilega yfirlýsingu um að þættirnir verði ekki sýndir að svo stöddu. Það gæti breyst eftir frekari viðræður.

Mörg vopn í búri FCC

Það að svipta fyrirtæki útsendingarrétti er í raun dauðadómur yfir því fyrirtæki og þá sérstaklega með tilliti til þess að rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna hefur versnað á undanförnum árum. Það getur einnig verið erfitt að fá í gegn.

Það hefur einungis þrisvar sinnum gerst í sögu FCC að sjónvarpsstöðvar hafi misst leyfið vegna einhvers sem sýnt hefur verið þar.

FCC hefur þó mörg önnur vopn í sínu vopnabúri, sem hægt er að nota til að refsa sjónvarpsfyrirtækjum.

Í viðtali við The Atlantic segir fyrrverandi yfirmaður stofnunarinnar að meðal annars geti FCC beitt sektum til að þvinga forsvarsmenn fyrirtækja til hlýðni. Stofnunin getur einnig staðið í vegi leyfisveitinga og samruna fyrirtækja og dregið úr hraða skrifinnsku stofnunarinnar þegar mikið er í húfi hjá fyrirtækjunum.

Gagnrýni á hægri vængnum

Aðgerðir og ummæli Carr og FCC hafa verið gagnrýnd af nokkrum á hægri væng bandarískra stjórnmála en ekki mörgum. Margir virðast þess í stað vilja hvetja Trump og Carr áfram.

Öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz hefur lýst yfir andstöðu sinni. Hann sagði meðal annars að hótanir Carr líktust hótunum mafíósa úr kvikmyndinni Goodfellas.

Hann sagði að persónulega væri hann ánægður með að Kimmel hefði verið tekinn úr loftinu. Það væri þó ekki gott hvernig staðið hefði verið að því. Ríkið ætti ekki að vera með fingurna í fjölmiðlum með þessum hætti og að það bryti gegn fyrsta ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna.

„Hann hótar berum orðum: „Við ætlum að ógilda útvarpsleyfi ABC. Við ætlum að taka hann af skjánum svo ABC geti ekki sent út lengur.“ ... Hann segir: „Það er hægt að gera þetta með auðveldum hætti, eða við getum þetta á erfiðan hátt“. Og ég verð að segja, þetta kemur beint úr Goodfellas. Þetta er alveg eins og ef mafíuforingi gengur inn á bar og segir: „Flottur bar sem þú rekur. Það væri synd ef eitthvað kæmi fyrir hann“,“ sagði Cruz í hlaðvarpinu um hótanir Carr.

Hlaðvarpsstjórnandinn og grínistinn áhrifamikli Joe Rogan hefur einni gagnrýnt Carr og alla íhaldsmenn sem fagnað hafa hótunum hans og árásum gegn tjáningarfrelsi.

Rogan sagðist sannfærður um að stjórnvöld ættu ekki að skipta sér af því hvað grínistar geta og geta ekki sagt.

„Það er fokking galið,“ sagði Rogan samkvæmt Hollywood Reporter.

Hann sagði að ef stjórnvöld væru að þrýsta á fyrirtæki og að hægri sinnað fólk væri að fagna því, væri það fólk galið.

„Þið eruð galin að styðja það því þetta mun verða notað gegn ykkur,“ sagði Rogan.

Þá gagnrýndi Rogan einnig Trump fyrir ítrekaðar færslur á Truth Social, hans eigin samfélagsmiðli, um þáttastjórnendur spjallþátta.

„Það er líka gjörsamlega galið. Ég hef ekki tíma fyrir það. Hvernig hefur þú tíma fyrir það? Hvernig hefur þú tíma á meðan þú ert að stýra heiminum, til að tísta um að þér sé illa við þáttastjórnendur? Það er svo galið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×