Stór­meistara­jafn­tefli í Lundúnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martinelli jafnaði metin í blálokin.
Martinelli jafnaði metin í blálokin. Charlotte Wilson/Getty Images

Það virtist lengi sem mark Erling Haaland snemma leiks ætlaði að vera munurinn í leik Arsenal og Manchester City í ensku úrvalsdeildinni. Gabriel Martinelli jafnaði hins vegar á ögurstundu og lauk leiknum með 1-1 jafntefli.

Leikur dagsins bar þess svo sannarlega merki að hvorugt liðið hafði neinn áhuga á að tapa og því var lítið um óþarfa áhættur. Hvað leikmynd varðar þá er erfitt að meta tölfræði leiks þar sem gestirnir frá Manchester komust yfir strax á 9. mínútu.

Markið skoraði norska markamaskínan Erling Haaland eftir sendingu Tijjani Reijnders í gegnum vörn heimamanna. Eftir það lögðust gestirnir til baka og leyfðu heimaliðinu að halda boltanum.

Gestirnir fagna marki sínu.EPA/VINCE MIGNOTT

Það leikplan virtist ætla að virka og voru komnar þrjár mínútur fram yfir venjulegan leiktíma þegar jöfnunarmarkið kom loks. Eberechi Eze fann þá Gabriel Martinelli sem tókst að lyfta boltanum snyrtilega yfir hinn tröllvaxna Gianluigi Donnarumma í marki Man City.

Staðan orðin 1-1 og þrátt fyrir spennandi lokamínútur tókst hvorugu liðinu að skora. Lauk leiknum því með 1-1 stórmeistarajafntefli.

Arsenal er nú með 10 stig í 2. sæti, fimm á eftir toppliði Liverpool. Man City er með 7 stig í 9. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira