Upp­gjör: FHL - Breiða­blik 1-5 | Breiða­blik náði 11 stiga for­ystu á toppnum og felldi FHL um leið

Hjörvar Ólafsson skrifar
523321470_31079546164963972_2452067644589365960_n
vísir/diego

Breiðablik fór með sannfærandi 5-1 sigur af hólmi þegar liðið sótti FHL heim á SÚN-völlinn á Neskaupstað í 17. umferð Bestu-deildar kvenna í fótbolta á  í dag.

Leikmenn FHL hófu leikinn af miklum krafti og Björg Gunnlaugsdóttir og Taylor Marie Hamlett voru nálægt því að koma heimakonum yfir í upphafi leiksins.

Blikar vöknuðu aftur á móti til lífsins þegar liða tók á leikinn og Birta Georgsdóttir kom gestunum yfir þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af leiknum. Agla María Albertsdóttir fékk stungusendingu í gegnum vörn FHL og lagði boltann á Birtu sem skoraði með skoti í autt markið.

Birta var þarna að skora sitt 13. mark í deildinni í sumar en hún nartaði í hæla í félaga síns í framlínu Breiðabliks, Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur, sem var markahæst fyrir leikinn í dag með 14 mörk.

Heiða Ragney Viðarsdóttir róaði svo taugar Blika enn frekar þegar hún tvöfaldaði forystu toppliðs deildarinnnar undir lok fyrri hálfleiks. Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir setti þá Heiðu Ragneyju í gegn og hún kláraði færið af stakri prýði.

Birta og Berglind Björg berjast um gullskóinn

Nik Anthony Chamberlain og Edda Garðarsdóttir, þjálfarar Breiðabliks, virðast hafa verið vel yfir málin í hálfleik en Blikar gengu frá leiknum á fimm mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks. 

Berglind Björg jók andrýmið í baráttunni um gullskóinn við Birtu um stundarsakir þegar hún skallaði boltann í netið eftir frábæra fyrirgjöf frá Öglu Maríu.

Birta ætlar aftur á móti greinilega ekki að veita Berglindi Björgu harða samkeppni um gullskóinn. Birta komst upp að hlið Berglindar Bjargar með tveimur mörkum með skömmu millibili. Birta og Berglind Björg hafa nú hvor um sig skorað 15 mörk. 

Christa Björg Andrésdóttir klóraði í bakkann fyrir FHL með marki sínu eftir um það bil klukkutíma leik. Lengra komst FHL ekki og 5-1 sigur Breiðabliks staðreynd. 

Breiðablik náði 11 stiga forystu á toppnum með þessum sigri en liðið hefur 46 stig þegar ein umferð er eftir deildarkeppninni en eftir það mætast svo sex efstu liðin í einfaldri umferð.

FHL er hins vegar fallið úr efstu deild eftir eins árs veru þar. Austfirðingar eru fjörtán stigum frá öruggu sæti í efstu deild þegar 12 stig eru eftir í pottinum.

Birta Georgsdóttir var á skotskónum á Neskaupstað í dag. Vísir/Viktor Freyr

Atvik leiksins

Það er eitthvað heimilislegt og notalegt við það þegar mörkum er fagnað með bílflautum eins og gerðist þegar Christa Björg skoraði mark sitt fyrir FHL. Það er fallegur hluti af íslenskri fótboltasögu að heyra bílflautuhljóð í kjölfar marka. 

Stjörnur og skúrkar

Birta var að öðrum ólöstuð besti maður vallarins en hún skoraði þrennu og hún var þess utan síógnandi. Hrafnhildur Ása var mikið í boltanum í þessum leik og var dugleg við að skapa færi fyrir samherja sína. Agla María lagði svo upp tvö mörk í leiknum. Sunna Rún Sigurðardóttir og Líf Joostdóttir van Bemmel komu með kraft inn af varamannabekknum. 

Björg Gunnlaugsdóttir og Calliste Brookshire voru öflugar á köntunum hjá FHL. Embla Fönn Jónsdóttir hafði í nógu að snúast og varði nokkrum sinnum vel eftir að hún kom inná sem varamaður í mark FHL. 

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, þau Ronnarong Wongmahadthai, Jovana Milinkovic, Pálmi Víðir Bjarnason og Jóhann Finnur Sigurjónsson létu leikinn flæða vel áfram og höfðu lítil áhrif á leikinn. Það kann ég að meta. Þau fá þar af leiðandi átt í einkunn fyrir störf sín að þessu sinni.

Stemming og umgjörð

Vallarstæðið á Neskaupstað er ofboðslega fallegt og notalegt að sjá báta sigla um sæinn á meðan á leiknum stóð. Leikmenn FHL fengu fínan stuðning í baráttu sinni og jávkæðar straumar sem komu úr stúkunni. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira