Enski boltinn

Hneykslaður á United: Fögnuðu marks­pyrnu eins og þeir væru að vinna HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Casemiro fagnar Bruno Fernandes með því að hoppa upp í fangið á honum.  
Casemiro fagnar Bruno Fernandes með því að hoppa upp í fangið á honum.   Getty/Jan Kruger

Manchester United vann fyrsta leik tímabilsins í gær þökk sé vítaspyrnu Bruno Fernandes í uppbótatíma leiksins.

Liðið hafði tapað fyrir Arsenal, gert jafntefli við Fulham og tapað í vítakeppni fyrir D-deildarliði Grimsby Town í fyrstu þremur leikjum tímabilsins.

Það efast enginn um að leikmenn United þurftu mikið á sigri að halda.

Það var um leið krafa um miklu meira sannfærandi sigur á nýliðum Burnley á Old Trafford. Í lokin leit hreinlega út fyrir að liðið væri að tapa tveimur stigum en þá komu myndbandsdómararnir til bjargar. Víti var dæmt, Bruno Fernandes fór á punktinn og skoraði sigurmarkið.

Það skipti leikmennina auðvitað miklu máli að losna aðeins undan pressunni sem var búin að byggjast upp á þeim og knattspyrnustjóranum Ruben Amoirm. Sigur í gær var vissulega lífsnauðsynlegur fyrir alla á Old Trafford.

Paul Merson, fyrrum Arsenal og knattspyrnusérfræðingur á Sky Sports, gat samt ekki leynt hneykslun sinni á leikmönnum United í lok leiksins.

Eftir sigurmark Bruno Fernandes þá voru leikmenn liðsins að reyna að eyða síðustu sekúndum leiksins.

Sky Sports sýndi frá því þegar liðið vann markspyrnu í blálokin og síðasta von Burnley um jöfnunarmark rann út í sandinn.

„Þeir eru að fagna þarna eins og þeir séu að vinna heimsmeistaramótið. Þeir voru bara að fá markspyrnu,“ sagði Paul Merson.

„Þetta er ótrúlegt að sjá,“ sagði Merson.

„Þeir voru að vinna Burnley 3-2. Dalot og Fernandes. Ég hef ekki séð menn missa sig svona þótt að þeir hafi verið að tryggja sér heimsmeistaratitilinn,“ sagði Merson.

„Horfið á þetta og þarna er Fernandes að stríða Burnley manninum. Samt sem áður þeir voru bara að vinna nýliðana 3-2,“ sagði Merson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×