Upp­gjörið: Þór/KA - Valur 1-2 | Mikil­vægur sigur gestanna

Árni Gísli Magnússon skrifar
Valur sótti þrjú stig á Akureyri.
Valur sótti þrjú stig á Akureyri. Vísir/ÓskarÓ

Valur jafnaði Þór/KA að stigum í Bestu deild kvenna með 1-2 sigri í Boganum á Akureyri í kvöld. Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skoraði sigurmarkið á 83. mínútu úr umdeildri vítaspyrnu. Eftir leikinn eru liðin jöfn í 4.-5. sæti en Valur hefur þó leikið einum leik betur.

Fyrsta alvöru færi leiksins kom eftir þrettán mínútur þegar Sandra María átti skot að marki sem Tinna Brá í marki Vals varði og sá til þess að boltinn lak fram hjá fjær stönginni.

Sandra María fékk annað gott færi um miðbik hálfleiksins þegar hún átti skalla að marki eftir hornspyrnu en boltinn beint á Tinnu Brá í markinu.

Valsliðið varð fyrir áfalli eftir hálftíma leik þegar Fanndís Friðriksdóttir þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Inn fyrir hana kom Helena Ósk Hálfdánardóttir.

Á 36. mínútu héldu líklega allir í Boganum að Valur væri að komast í forystu. Gestirnir héldu boltanum vel innan liðsins og loks sendi Ragnheiður Þórunn boltann frá vinstri inn á Jasmín Erlu sem var alein á markteignum gegn Jessicu í marki Þór/KA en setti boltann beint á hana úr sannkölluðu dauðafæri og staðan áfram markalaus.

Þór/KA sótti nokkrar hornspyrnu undir lok hálfleiksins og skapaðist alltaf mikil hætta en Valskonur sluppu með skrekkinn því markalaust þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Fyrstu fimmtán mínútur síðari hálfleiks voru ekki mikið fyrir augað og einkenndust af stöðubaráttu og lítið um opin færi en það átti eftir að breytast.

Eftir rúmar 60 mínútur fékk Jasmín Erla í annað sinn dauðafæri en aftur var skotið ekki gott og Jessica varði frá henni án mikilla vandræða.

Nokkrum mínútum síðar var títtnefnd Jasmín enn og aftur í góðu færi inn á markteig þegar boltinn barst til hennar nokkuð óvænt á fjær stöngina en sem fyrr var Jessica vandanum vaxin í markinu.

Þór/KA heimtaði svo vítaspyrnu skömmu síðar þegar Sandra María skallaði boltann yfir eftir aukaspyrnu og henni virtist vera ýtt í loftinu en ekkert dæmt.

Það jók því bara á reiði heimakvenna að Valur skyldi skora strax í næstu sókn. Jasmín Erla var þá með boltann fyrir utan teig og sendi hann stutt í hlaupið fyrir Helenu Ósk sem setti boltann til hliðar á Jordyn Rhodes sem kom boltanum yfir línuna og Val í forystu.

Þór/KA jafnaði leikinn á 79. mínútu og var þar að verki Sandra María úr vítaspyrnu eftir að Málfríður Anna sparkaði boltanum upp í sína eigin hönd innan teigs.

Það sló fljótt á gleði heimakvenna því á 83. mínútu benti Sigurður Þrastarson, dómari leiksins, á hinn vítapunktinn þegar hann taldi Margréti Árnadóttur handleika knöttinn innan teigs þegar hún kom honum frá eftir hornspyrnu. Þór/KA mótmælti dómnum mikið en dómurinn virkaði harður.

Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir steig á punktinn og skoraði af öryggi og tryggði Val 1-2 sigur.

Atvik leiksins

Vítaspyrnan sem Valur fær og tryggir þeim sigur. Margrét er fremsti varnarmaður í hornspyrnu og boltinn kemur beint á hana og hún virtist koma honum í burtu með öxlinni án þess þó að beita hendinni. Ragnheiður steig á puntkinn og skoraði.

Stjörnur og skúrkar

Helena Ósk Hálfdánardóttir kom inn á fyrir Fanndísi Friðriksdóttur í fyrri hálfleik og átti virkilega góða innkomu. Áræðin og erfið við að eiga á kantinum og óhrædd við að sækja á. Leggur upp fyrra markið á Rhodes og tekur hornspyrnuna sem vítið kemur úr sem ákveðin heppni fylgdi.

Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir var einnig öflug á hinum kantinum og skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu.

Hjá Þór/KA var Karen María Sigurgeirsdóttir iðulega í kringum boltann þegar hætta skapaðist sem var úr ófáum föstum leikatriðum.

Henríetta Ágústsdóttir spilaði í vinstri bakverðinum eftir að hafa glímt við meiðsli í sumar og átti fínan leik framan af og vonandi fyrir Þór/KA verður hún heil áfram.

Dómarinn

Dómgæslan litast auðvitað svolítið af þessum vítaspyrnudómum. Málfríður sparkar boltanum beint í höndina á sér og lítið annað hægt að gera en dæma víti en það er hægt að deila um vítið sem Margrét fékk á sig mun meira.

Sigurður leyfði annars leiknum að fljóta nokkuð vel sem áhorfendur virtust ekkert alltof sáttir með alltaf en allir hafa sína skoðun.

Stemning og umgjörð

167 áhorfendur í Boganum í dag en þeir hefðu alveg mátt vera fleiri. Umgjörðin flott í Boganum að venju og stelpurnar stóðu sig með prýði á trommunum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira