Erlent

Leggur til að frí­dögum verði fækkað um tvo

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Búast má við að Frakkar mótmæli því að frídögum verði fækkað.
Búast má við að Frakkar mótmæli því að frídögum verði fækkað. Getty/Remon Haazen

François Bayrou, forsætisráðherra Frakklands, hefur lagt til að tveir hátíðisdagar verði venjulegir vinnudagar. Tillagan var lögð fram samhliða fjárlögum ársins 2026 og endurspeglra viðleitni til að auka framleiðni og draga úr skuldasöfnun ríkisins.

Samkvæmt þeim myndu annar í páskum og 8. maí, þegar Frakkar fagna endalokum seinni heimstyrjaldarinnar, ekki lengur vera frídagar heldur hefðbundnir vinnudagar.

„Öll þjóðin þarf að vinna meira til að framleiðni landsins alls aukist og það rætist úr aðstæðum Frakklands. Allir munu þurfa að leggja sitt af mörkum,“ sagði forsætisráðherrann þegar hann kynnti fjárlögin.

Hann sagðist hins vegar opin fyrir umræðum um að aðrir frídagar en þessir tveir yrðu afnumdir.

Heildarhalli Frakklands nemur nú 5,8 prósentum af landsframleiðslu og þá nema skuldir ríkisins 3,3 trilljónum evra. Bayrou sagði skuldir ríkisins setja landið í „lífshættu“ og að aðhaldsaðgerðum væri ætlað að koma hallanum niður í 4,6 prósent á næsta ári og niður fyrir 3 prósent árið 2029.

Aðrar tillögur fela meðal annar í sér að engin útgjöld verða aukin nema útgjöld til varnarmála og laun opinberra starfsmanna „fryst“, svo eitthvað sé nefnt.

Gert er ráð fyrir að hugmyndir forsætisráðherrans um að fækka frídögum muni mæta harðri andstöðu en þeim hefur nú þegar verið mótmælt af stjórnarandstöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×