Enski boltinn

United niður­lægt í Malasíu

Valur Páll Eiríksson skrifar
United-menn höfðu ekki miklu að fagna í dag.
United-menn höfðu ekki miklu að fagna í dag. Getty/Bradley Collyer

Manchester United tapaði 1-0 fyrir úrvalsliði Suðaustur-Asíu í æfingaleik í Kuala Lumpur síðdegis. Næst tekur við leikur í Hong Kong.

Fimm af ellefu sem byrjuðu úrslitaleik Evrópudeildarinnar á dögunum voru í byrjunarliði United-liðsins í dag og tóku sterkir leikmenn þátt fyrir hönd Rauðu djöflanna sem ljúka leiktíðinni á Asíureisu í von um auknar tekjur.

Maung Maung Lwin, fyrirliði landsliðs Mjanmar, skoraði eina mark leiksins á 70. mínútu til að tryggja ASEAN-liðinu, úrvalsliði leikmanna frá Suðaustur-Asíu og Ástralíu, 1-0 sigur í leiknum.

United-liðið flaug utan á mánudag, eftir 2-0 sigur á Aston Villa í lokaleik ensku úrvalsdeildarinnar, og hafði flugþreyta án efa einhver áhrif og hægt að setja spurningamerki við spennu leikmanna United-liðsins fyrir verkefninu.

Frammistaðan var hins vegar óafsakanleg, ef marka má breska miðla. United getur svarað fyrir hana þegar liðið mætir landsliði Hong Kong í öðrum sýningarleik á föstudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×