Upp­gjörið: FHL - Þróttur 0-4 | Þróttarar á toppinn eftir stór­sigur fyrir austan

Helena Lind Ólafsdóttir skrifar
þróttur guðmundur
vísir/Guðmundur

Leikmenn Þróttar R. sóttu hart að heimamönnum FHL í Fjarðabyggðarhöllinni í 7. umferð Bestu deilar kvenna í dag. Lokastaða leiksins varð 4-0 fyrir gestunum og fara þær því heim á toppi deilarinnar en nýliðarnir eru enn án stiga.

Leikurinn byrjaði hinsvegar ekki af mikilli hörku eins og lokastaðan gefur til kynna. Bæði lið áttu aðeins eitt skot á markið fyrstu 20 mínútur leiksins og fóru bæði hægt af stað. Freyja Karín Þorvarðardóttir nældi sér í gult spjald á 24. mínútu fyrir peysutog og aðeins þremur mínútum seinna var Þróttur R. kominn yfir eftir að langt skot frá Katherine Amanda Cousins sem endaði í hægra horni marks FHL. 

Rétt fyrir hálfleik átti Unnur Dóra Bergsdóttir gott skot sem endaði í slánni og yfir. Innan við mínútu seinna reyndi hún aftur og endaði þá boltinni í stönginni og inn. Staðan var því 2-0 fyrir Þrótti R. í hálfleik og heimamenn áttu langt í land að sækja. FHL reyndi enn og aftur langar sendingar á sína sóknarmenn sem varð til þess að þær misstu frá sér fleiri bolta en þær vildu og Þróttarar nýttu sér það til fulls. Þróttur lét reyna á stuttar sendingar og gott samspil sem skilaði þeim þessari forystu í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði með krafti og skoraði Unnur Dóra Bergsdóttir flott mark sem fór beint upp í hægra hornið á 47. mínútu og staðan orðin 3-0 gestunum í vil. FHL átti nokkrar marktilraunir sem skiluðu allar að lokum engu. 

Á 70. mínútu gerðu bæði lið margar skiptingar en það var svo á 80. mínútu þar sem lokamark leiksins kom. Mikill glundroði skapaðist innan teigs FHL og það var hún Sóley María Steinarsdóttir sem fann opnun og smellti boltanum á milli inn í markið. Lokastaða leiksins varð því 4-0 fyrir Þrótti R. og fara þær heim efstar í deildinni.

Atvik leiksins

Alexia Marin Czerwien fékk þrusu fast skot í andlitið á 65. mínútu og þurfti að fara út af til aðhlynningar með kröftugar blóðnasir. Ekki er vitað um ástand hennar að svo stöddu en fékk hún aðstoð frá sjúkraþjálfara í kjölfarið. Einnig þurfti Unnur Dóra Bergsdóttir að stíga útfyrir eftir að hafa skollið saman við andstæðing og fengið blóðnasir. Freyja Karín lennti í smá veseni þegar hún var hlaupin niður tvisvar sinnum inní teig FHL en aldrei var dæmt á það.

Stjörnur og skúrkar

Óhætt er að segja að Unnur Dóra átti frábæran leik, hún skoraði tvennu fyrir sitt lið og átti þar að auki fjölda marktækifæra. Bæði lið spiluðu fallegan fótbolta og enginn pirringur eða streyta var í leikmönnum í þetta sinn. Leikmenn og þjálfarar voru ekki endilega alltaf sammála dómörum en eins og Rósey Björgvinsdóttir, fyrirliði FHL, sagði í viðtali eftir leik „Við stjórnum því sem við getum stjórnað“.

Dómararnir

Ronnarong Wongmahadthai bar flautu dagsins og með honum voru þeir Borislav Ljubisic og Dragoljub Nikoletic. Gekk dómgæsla leiksins vel og unnu þeir vel saman þar sem efasemdir komu upp.

Stemning og umgjörð

Góð mæting var á leikinn í dag þrátt fyrir kalt hitastig í Fjarðabyggðarhöllinni. Gestir sköpuðu góða stemningu og gaman að sjá góða mætingu á Bestu Deildar leikina fyrir austan.

Viðtöl

Rósey Björgvinsdóttir: „Við erum að bæta okkur með hverjum leik þótt úrslitin sýni það ekki endilega“

„Mjög margt hefði mátt fara betur, en svona helst bara það sem við vorum að gera inn í báðum teigum. Verjast betur í okkar teig og nýta kannski betur færin í þeirra teig.“ - Sagði Rósey Björgvinsdóttir, fyrirliði FLH, eftir leikinn.

„Hún er bara eins og hún er, við breytum því ekkert við verðum bara að gera okkar. Við stjórnum því sem við getum stjórnað“ - Bætti Rósey við þegar hún var spurð út í dómgæslu leiksins þar sem sumir settu spurningamerki við ýmislegt í leiknum.

Aðspurð um framhaldið og hvenær fyrstu stigin myndu koma í hús var Rósa hæfilega bjartsýn.

„Ég held að það hljóti nú að fara að koma að þessu. Við erum að bæta okkur með hverjum leik þótt úrslitin sýni það ekki endilega í dag en þetta mun koma á endanum hjá okkur.“

Björgvin Karl: „Stemningin er alls ekki góð og þjálfarinn er frekar pirraður“

Björgvin Karl leitar að fyrstu stigum sinna kvennaVísir/Guðmundur

Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL, var ekkert sérlega hress í leikslok.

„Stemningin er alls ekki góð og þjálfarinn er frekar pirraður yfir því að hafa tapað 4-0 þó við séum nú að spila á móti mjög góðu liði. Við gerðum þrjú mistök sem verður valdur að því að þær ná að skora þrjú mörk og hefði ég nú viljað fá brot í fjórða markinu en dómarinn ræður því. Heilt yfir vorum við með svona ákveðin atriði sem voru í lagi en þrjú mistök, þrjú mörk - það er ekki nógu gott.“

„Ekki ef við ætlum að spila svona en ef við getum tekið þessa góðu kafla þá ættum við alveg að geta gert þetta.“ - Bætti hann við þegar hann var spurður um þessi langþráðu fyrstu stig FHL í deildinni.

Ólafur Helgi: „Skipulagt lið sem barðist að krafti“

Ólafur í sólinni fyrr í sumarVísir/Guðmundur

„Mér fannst liðið takast mjög vel á við leikinn. Við vissum það að FHL er búið að eiga erfiða byrjun á mótinu og þær myndu selja sig dýrt, gerðu það. Skipulagt lið sem barðist að krafti og ekkert hægt að brjóta þær niður einn tveir og þrír. En mér fannst stelpurnar spila leikinn mjög vel og hafa góð tök á leiknum og er ég mjög ánægður með vinnuframlagið og spilamennskuna.“ - Sagði Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Þróttar R. eftir leikinn í dag.

„Andinn í liðinu var mjög góður eins og hann er búinn að vera. Þetta eru bara geggjaðar stelpur sem leggja mikið á sig og góð samstaða og þær eru bara himinlifandi núna. Núna bara hvílum við okkur eftir þennan leik og hálfs mánaðar hlé, safna orku og svo kemur annar sprettur áður en það verður langt hlé út af Evrópumótinu þannig að það er bara að njóta þess að hafa unnið þennan leik og svo endurhlaða. Gíra sig í næstu verkefni.“ - Bætti hann við, sáttur eftir sigurinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira