Upp­gjörið: Breiða­blik - Valur 2-1 | Blikar á toppinn

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Andri Rafn Yeoman jafnaði metin en það er ekki á hverjum degi sem hann skorar.
Andri Rafn Yeoman jafnaði metin en það er ekki á hverjum degi sem hann skorar. Vísir/Diego

Eftir að lenda undir snemma leiks komu Íslandsmeistararnir til baka og unnu dramatískan 2-1 sigur sem lyftir þeim á topp Bestu deildar karla í knattspyrnu. Valsmenn allt annað en sáttir þar sem mark var dæmt af þeim undir lok leiks.

Leikurinn fór fjörlega af stað og komust gestirnir í Val yfir strax á 3. mínútu leiksins þegar Tryggvi Hrafn Haraldsson slapp einn í gegn og lagði boltann framhjá landsliðsmarkverðinum Anton Ara í marki Breiðabliks. Draumabyrjun fyrir gestina á Kópavogsvelli.

Valsmenn héldu áfram að ógna marki Breiðabliks og voru að finna svæði á bakvið vörn Blika. Heimamenn virkuðu hálf slegnir yfir því að lenda svona snemma undir.

Breiðablik unnu sig þó vel inn í leikinn og fengu nokkrar álitlegar stöður áður en Andri Rafn Yeoman jafnaði loks leikinn fyrir þá á 30. mínútu með laglegu marki úr þröngu færi.

Bæði lið skiptust á að koma sér í fínar stöður fyrir hlé en náðu þó ekki að ógna að neinu ráði. Liðin fóru með jafna stöðu inn í hálfleikinn 1-1.

Bæði lið komu með fínasta kraft út í seinni hálfleikinn og voru að koma sér í fínar stöður en vantaði bara að reka smiðshöggið.

Breiðablik komst yfir á 66. mínútu leiksins. Flott sókn Breiðabliks endaði með að Kristinn Steindórsson kom boltanum á Óla Val Ómarsson sem lagði boltann fast niðri á fjærstöngina.

Valsmenn fengu færi seint í leiknum til að jafna leikinn og náði Hólmar Örn Eyjólfsson að skora mark sem dæmt var af vegna brots í aðdraganda. Valsmenn vildu líka fá vítaspyrnu þegar skot frá Aroni Jóhannsyni fór í hendina á Viktori Karl en ekkert dæmt.

Það fór svo að Breiðablik hafði á endanum flottan sigur 2-1 og tyllti sér um leið á topp deildarinnar eftir úrslit umferðarinnar.

Atvik leiksins

Valur vildi fá vítaspyrnu í uppbótartíma þegar Aron Jóhannsson á skot sem fer í hendina á Viktor Karl Einarssyni. Stuttu áður hafði Hólmar Örn Eyjólfsson náð að skora mark sem fékk ekki að standa þar sem dæmt var á brot í aðdragandanum. Hvort þetta voru réttir dómar skal ósagt látið enda erfitt að meta.

Stjörnur og skúrkar

Andri Rafn Yeoman var flottur í kvöld og skoraði gott mark. Valgeir Valgeirsson átti líka góðan leik fyrir Blika og var valinn maður leiksins á vellinum. Afmælisbarnið Ásgeir Helgi Orrason var svo flottur í varnarlínu Blika.

Hjá Val var Tryggvi Hrafn hættulegur framan ásamt Jónatan Inga en það dró svolítið af þeim eftir því sem á leið.

Dómararnir

Arnar Þór Stefánsson sá um dómgæsluna í kvöld og honum til aðstoðar voru Ragnar Þór Bender og Eðvarð Eðvarðsson. Gunnar Oddur Hafliðason var fjórði dómari og sérlegur tæknimaður á skilti. 

Smá kaos í lokinn þar sem vafa atriðin féllu með Blikum. Ef það er tekið út fyrir sviga var þetta allt í lagi ekki gott.

Stemingin og umgjörð

Það var ruglað veður, grillið stóð fyrir sínu og Brasserie með vagn að bjóða upp á naut og bernaise. Það var nákvæmlega allt upp á 11,5!


Tengdar fréttir

„Það er bara áfram gakk og vinna næsta“

Valur heimsótti Breiðablik á Kópavogsvöll í kvöld þegar sjöunda umferð Bestu deild karla leið undir lok. Valsmenn komust yfir en urðu á endanum að sætta sig við 2-1 tap.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira