Erlent

Um­setin af krókódílum í 36 klukku­tíma eftir nauðlendingu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Fiskimenn komu að flakinu í mýri í regnskóginum.
Fiskimenn komu að flakinu í mýri í regnskóginum. Getty

Fimm manns var komið til bjargar eftir að hafa nauðlent í mýri í Amasonfrumskóginum. Þau höfðu setið föst á baki flugvélar í 36 klukkustundir umsetin af krókódílum sem eru ófáir í mýrum og fljótum regnskógarins.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að fiskveiðimenn í Beni-héraði Bólivíu hafi komið að rellunni þar sem hún sat föst í mýri. Hennar og farþeganna hafði verið saknað í tvo sólarhringa og björgunarsveitir höfðu leitað að henni víða en án árangurs.

Flugmaður, þrjár konur og eitt barn voru um borð í vélinni þegar hún nauðlenti í mýrinni. Að sögn flugmannsins Andres Velarde bilaði mótor vélarinnar en hún var á leið sinni frá Baures í norðurhluta Bólivíu til Trinidad-borgar. Hann segir vélina hafa skyndilega lækkað flugið og að hann hafi neyðst til að brotlenda í mýri í nágrenni Itanomas-fljóts.

Í kjölfar nauðlendingarinnar komu flugmaðurinn og farþegarnir sér fyrir ofan á vélinni en urðu fljótlega vör við fjölda krókódíla sem gerðu sig líklega til að ráðast á þá. Haft er eftir þeim að krókódílar hafi beinlínis umkringt vélina og verið innan við þremur metrum frá þeim þar sem þau sátu föst á baki vélarinnar.

Haft er eftir Velarde flugmanni að hann tryði því að bensín sem lak úr tanki vélarinnar hefði haldið krókódílunum í þægilegri fjarlægð og þannig bjargað þeim frá því að eiga nánari kynni við þá. Eiturslöngur hafi jafnframt verið tíðir gestir í mýrinni en hættu sér ekki í bensínmengað vatnið í kringum flakið.

„Við gátum ekki drukkið vatn og við gátum ekkert farið vegna krókódílanna,“ er haft eftir honum í umfjöllun breska ríkisútvarpsins.

Í kjölfar þess að fiskveiðimenn komu að vélinni var þyrla kölluð út til að bjarga þeim sem föst voru. Þau voru flutt á sjúkrahús til aðhlynningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×