Samkvæmt upplýsingum frá Hvíta húsinu var fundurinn „mjög árangursríkur“. BBC hefur eftir talsmanni Úkraínustjórnar að forsetarnir muni hittast aftur síðdegis.
Trump og Selenskí voru báðir viðstaddir útför Frans Páfa ásamt eiginkonum sínum og fleiri þjóðarleiðtogum. Áætlað er að um 200 þúsund manns hafi verið viðstaddir.
Trump greindi frá því í gær að Rússar og Úkraínumenn, ásamt Bandaríkjamönnum, væru að nálgast samkomulag í yfirstandandi friðarviðræðum.
Tilkynningin kom í kjölfar fundar Steve Witkoff sendifulltrúa Bandaríkjastjórnar og Vladimírs Pútín Rússlandsforseta í Mosku í gær. Þar báru þeir saman tillögur Bandaríkjastjórnar annars vegar og Evrópuríkja og Úkraínu hins vegar að friðarsamkomulagi.
Sjá einnig: Bandaríkin vilja láta meira undan Rússum en Evrópa
Tillögurnar tvær voru talsvert frábrugðnar hvorri annarri. Í tillögu Bandaríkjastjórnar er til að mynda gert ráð fyrir að Bandaríkin viðurkenni yfirráð Rússa yfir Krímskaga. Evrópsk-úkraínska tillagan gerir aftur á móti ekki ráð fyrir að Úkraínumenn gefa eftir neitt landsvæði fyrr en mögulega eftir að samið verður um vopnahlé.
Bandaríkjastjórn hefur hótað því að hætta að skipta sér af friðarumleitunum í Úkraínu ef stríðandi fylkingar samþykkja ekki tillögur hennar að friði.
Fundur Trump og Selenskí er sá fyrsti sem þeir eiga í eigin persónu eftir fundinn sem þeir áttu ásamt J.D. Vance varaforseta Bandaríkjanna í lok febrúar. Á þeim fundi sökuðu Trump og Vance Selenskí um vanþakklæti og virðingarleysi og sögðu hann hætta á heimsstyrjöld.
Fundurinn í febrúar vakti mikla umræðu og flestir leiðtogar Evrópuríkjanna fordæmdu hegðun Bandaríkjamannanna á honum.