KA hefur ekki tapað leik í seinni umferðinni. Síðasti tapleikur liðsins var gegn Breiðabliki á útivelli 19. júní, í 10. umferð og liðið hefur í seinni umferðinni safnað 19 stigum, og fengið á sig aðeins sjö mörk í níu leikjum.
FH-ingar hafa einnig safnað vel af stigum í seinni umferðinni og Fylkismenn væru ekki á botni deildarinnar ef þeir hefðu spilað eins vel í upphafi móts.
Valsmenn eru hins vegar í 6. sæti yfir flest stig í seinni umferðinni, meistarar í Víkings í 4. sæti og KR og HK neðst. Víkingur og KR eiga þó frestaðan leik sinn inni. HK-ingar hafa fengið á sig heil 30 mörk í 9 leikjum í seinni umferðinni.
Stigasöfnunina í seinni umferð má sjá hér að neðan.

Hnífjöfn barátta um alla deild
Núna eru aðeins tvær umferðir eftir áður en Bestu deildinni verður skipt í tvennt, fyrir fimm umferða úrslitakeppnina. Við þær bætist þó frestaður leikur KR og Víkings. Blikar og Víkingar eiga í hnífjafnri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn en margt þarf að gerast til að Valur blandi sér í þá baráttu.
Auk Vals eru FH og ÍA, og jafnvel Stjarnan, KA og Fram, í baráttu um Evrópusæti en efstu þrjú lið deildarinnar fá Evrópusæti, sem og liðið í 4. sæti ef að Víkingar vinna bikarúrslitaleikinn við KA og enda meðal fjögurra efstu í deildinni.
HK og Fylkir sitja í fallsætum en Vestri og KR eru mjög skammt undan.

KA og Fram þurfa hjálp frá FH eða Vestra
Það er fullt af afar mikilvægum leikjum í síðustu tveimur umferðunum fyrir skiptingu, og þar er barátta Stjörnunnar, KA og Fram hnífjöfn um sjötta og síðasta sætið í efri hlutanum. Engin innbyrðis viðureign er á milli þeirra svo að KA og Fram verða að treysta á að Stjarnan misstígi sig gegn FH eða Vestra.
Allra síðasti séns Vals á að vera með í titilbaráttunni er á sunnudaginn þegar liðið mætir Val í 21. umferðinni. Hún fer öll fram þann dag. Lokaumferðin fyrir skiptingu er svo eftir landsleiki, 15. og 16. september, en áður mætast KR og Víkingur 13. september.
