Uppgjörið: Breiðablik - Fylkir 3-0 | Blikar sýndu sparihliðarnar á köflum Andri Már Eggertsson skrifar 6. ágúst 2024 21:06 Höskuldur Gunnlaugsson skoraði tvö marka Breiðabliks í kvöld. Vísir/Hulda Margrét Breiðablik lagði Fylki að velli með þremur mörkum gegn engu þegar liðin áttust við í 17. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Höskuldur Gunnlaugsson skoraði tvívegis af vítapunktinum og Viktor Örn Margeirsson reif fram skotskóna leiknum. Eins og við var að búast voru Blikar mun meira með boltann í leiknum. Fyrsta hálftímann gekk þó illa að finna glufur á þéttum varnarmúr Fylkisliðsins. Aron Bjarnason komst næst því að finna netmöskvana á marki Fylkis og Höskuldur Gunnlaugsson átti skemmtilega tilraun þegar hann reyndi að setja boltann yfir Ólaf Kristóf Helgason með skoti frá miðlínu. Það var svo eftir rúmlega háltíma leik sem téður Höskuldur braut ísinn fyrir heimamenn. Fyrirliðinn skoraði þá úr vítaspyrnu sem dæmd var á Orra Svein Segatta fyrir að brjóta á Ísaki Snæ Þorvaldssyni. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, var ekki par sáttur við þá ákvörðun Ívars Orra Kristjánssonar og ræddi þann dóm í þó nokkra stund við Vilhjálm Alvar Þórarinsson, fjórða dómara leiksins. Annað mark Blika kom svo í upphafi seinni hálfleiks en það mark úr nokkuð óvæntri átt. Viktor Örn Margeirsson skoraði þá eftir fyrirgjöf Arons. Boltinn hrökk fyrir fætur Viktors Arnar sem skoraði með hnitmiðuðu skoti. Eftir þetta mark var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Rúnar Páll gerði þrefalda skiptingu um miðjan seinni hálfleik og það kveikti smá glóð í sóknarleik Fylkis. Höskuldur rak aftur á móti síðasta naglann í líkkistu Fylkis þegar hann skoraði aftur úr víti sem Ísak Snær gerði vel í að fá. Ísak Snær sýndi mátt sinn og megin þegar hann hristi Ásgeir Eyþórsson af sér og Ásgeir nartaði í hæla framherjans og vítaspyrna réttilega dæmd. Sá litli kraftur sem var í Fylkisliðinu hvarf endanlega. Blikar héldu boltanum vel það sem eftir lifði leiks og uppspilið gekk smurt hjá þeim. Heimamenn fengu góðar stöður og fín færi til þess að bæta fleiri mörkum við en niðurstaðan öruggur 3-0 sigur. Breiðablik minnkaði forskoti Víkings á toppi deildarinnar í sex stig en Víkingru hefur 39 stig og Blikar 33 stig. Kópavogsliðið á leik til góða og getur andað hærra í hálsmálið á ríkjandi Íslansdmeisturum. Fylkir er hins vegar áfram í fallsæti en liðið hefur 12 stig líkt og Vestri á botni deildarinnar. HK, sem leikur við KR í umferðinni á fimmtudaginn kemur, er í næsta sæti fyrir ofan fallsvæði deildarinnar með 14 stig. Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.Vísir/Pawel Halldór Árnason: Mjög flottur seinni hálfleikur „Fylkismenn gerðu okkur erfitt fyrir, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir voru þéttir og við fengum fá afgerandi færi í fyrri hálfleik, mestmegnis bara langskot og annað í þeim dúr. Það var hins vegar allt annað að sjá okkur í seinni hálfleik og við náðum að opna þá betur. Boltinn gekk hraðar og ég var bara heilt yfir ánægður með spilamennskuna í seinni hálfleiknum. Við fundum taktinn og náðum að færa boltann hratt milli lína og koma okkur oftar í hættulegar stöður,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, sáttur. „Við skoruðu þrjú flott mörk og höfðum að lokum sigur sem við sigldum í höfn á sannfærandi hátt. Þegar þriðja markið kom þá var þetta endanlega í höfn. Við náðum að halda boltanum vel og hefðum hæglega getað skorað fleiri mörk. Við náðum að rúlla liðinu vel og vildum fá ferskleika með skiptingunum. Það tókst og ég er sáttur við það. Tumi Fannar Gunnarsson, ungur strákur, fær korter í þessum leik og hann stóð sig bara mjög vel sem er jákvætt,“ sagði Halldór enn fremur. Rúnar Pall: Þetta var aldrei víti „Mér fannst við bara spila heilt yfir vel í þessum leik. Þeir opnuðu okkur lítið sem ekkert og fá ekki mörg góð færi. Þeir skora fyrsta markið úr víti sem var bara aldrei víti. Það er klárt. Svo skora þeir eftir klafs þar sem Orri Sveinn er blokkaður. Ásgeir gerir svo ekki nógu vel þegar hann fær á sig í vítið í þriðja markinu,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis. „Eins og áður í sumar þá erum við ekki nógu skilvirkir í sóknarleiknum okkar. Það er ekkert launungarmál að við erum að leita að styrkingu í sóknarlínunni en það gengur hægt. Nikulás Val, sem er öflugur miðjumaður, er að skila fínu framlagi í framlínunni en það vantar brodd þar, það er ljóst. Vonandi náum við að landa sóknarmanni áður en glugginn lokar,“ sagði hann um sóknarleik lærisveina sinna. Það vakti athygli að Fylki sendi frá sér yfirlýsingu um korteri fyrir leik í kvöld þar sem svarað var fyrir umfjöllun Þungavigtarinnar um fjárhagsvandræði félagsins. Rúnar Páll vildi lítið segja um þá yfirlýsingu: „Hvað viltu að ég segi. Koma með einhverjar blammeringar hérna. Nei ég hef ekkert meira að segja um þetta mál en kemur fram í yfirlýsingunni. Við elskum þetta félag og ég er bara í vinnu fyrir Fylki og á meðan svo er þá geri ég mitt besta og legg mig allan fram við mín störf. Við stöndum allir saman í þessu og höfum fulla trú á því að við getum klifrað upp töfluna. Við höfum spilað vel í sumar og ég tel okkur eiga skilið að vera með fleiri stig. Einn til tveir sigurleikir í röð þá ertu kominn um miðja deild og ég er viss um að það muni gerast í næstu leikum. Nú þurfum við, já og þið fjölmiðlamenn líka, að fara að slaka aðeins og einbeita okkur að fótboltanum. Það er bara áfram gakk og næsti leikur sem skipti máli. Við hættum ekki fyrr en mótið er búið,“ sagði Rúnar Páll ákveðinn en um leið léttur í lundu. Rúnar Páll útskýrði svo hvers vegna fyrirliði liðsins, Ragnar Bragi Sveinsson, hóf leikinn á varamannabekknum: „Ragnar Bragi er kominn með fjögur spjöld og við héldum að bannið hans myndi taka gildi á þriðjudegi eins og vaninn er. Af þeim sökum vorum við búnir að undirbúa leikinn með Ragnar Braga ekki í byrjunarliðinu. Við vildum ekki breyta því þegar á hólminn var komið og þess vegna byrjaði hann á bekknum,“ sagði þjálfarinn þrautreyndi hreinskilinn. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, á hliðarlínunni. Vísir/Anton Brink Atvik leiksins Segja má að atvik leiksins hafi komið skömmu áður en leikurinn hófst en Fylkismenn sendu þá frá sér yfirlýsingu þar sem svarað var fyrir umfjöllun Þungavigtarinnar um fjárhagsvandræði félagsins. Athyglisverð tímasetning á þessari yfirlýsingu og kannski ekki gott veganesti í undirbúningi liðsins. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkisliðsins, hefur ekki farið leynt með það að hann vilji fá sóknarmann inn í leikmannahópinn en það gangi hægt. Þarna er mögulega komin skýring á því hvers vegna það gengur hægt að styrkja hópinn. Stjörnur og skúrkar Það er unun að horfa á Höskuld fá boltann í fætur í millisvæðinu, snúa með hann og skapa hættu með sendingum sínum. Fyrirliðinn gerði það trekk í trekk í þessum leik auk þess að setja boltann rétta leið af vítapunktinum í tvígang. Höskuldur hefur nú skorað sex mörk í deildinni í sumar. Aron Bjarnason var líflegur og hættulegur á hægri vængnum en hann lagði upp mark Viktors Arnar. Ísak Snær var svo ferskur í fremstu víglínu en hann nældi í tvær vítaspyrnur í leiknum. Að sama skapa var varnarleikur miðvarða Fylkis, Orra Sveins Segatta og Ásgeirs Eyþórssonar í báðum tilvikunum þar sem Ísak Snær náði í víti fremur klaufalegur. Theódór Ingi Óskarsson hleypti smá lífi í annars bitlausan sóknarleik Fylkis eftir að hann kom inná sem varamaður. Nikulás Val Gunnarssyni var vorkunn yfir hversu lítinn stuðning hann fékk frá liðsfélögnum sínum bæði í pressu og við sóknarleikinn. Dómarar leiksins Ívar Orri Kristjánsson og hans teymi áttu gott kvöld og báðir vítaspyrnudómarnir voru réttir. Leikurinn fékk að flæða vel og engar ákvarðanir sem orkuðu tvímælis. Þjálfarar og leikmenn fengu að blása innan marka og góð leikstjórn hjá kvartettnum. Stemming og umgjörð Leikurinn var spilaður við nánast fullkomnar aðstæður. Rigning og vökvun vallarstarfsmanna gerðu það að verkum að gervigrasið var hæfilega blautt til þess að boltinn flaut vel á milli leikmanna liðanna. Veðurguðirnir gerðu hlé á monsúnregninu sem lamið hefur landann í sumar rétt á meðan þessum fótboltaleik stóð og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það. Vel mætt á völlinn í kvöld og ung og vösk stuðningssveit Blika lét vel í sér heyra. Létt yfir mannskapnum sem fékk töluvert fyrir aurinn að þessu sinni. Besta deild karla Breiðablik Fylkir Íslenski boltinn Fótbolti
Breiðablik lagði Fylki að velli með þremur mörkum gegn engu þegar liðin áttust við í 17. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Höskuldur Gunnlaugsson skoraði tvívegis af vítapunktinum og Viktor Örn Margeirsson reif fram skotskóna leiknum. Eins og við var að búast voru Blikar mun meira með boltann í leiknum. Fyrsta hálftímann gekk þó illa að finna glufur á þéttum varnarmúr Fylkisliðsins. Aron Bjarnason komst næst því að finna netmöskvana á marki Fylkis og Höskuldur Gunnlaugsson átti skemmtilega tilraun þegar hann reyndi að setja boltann yfir Ólaf Kristóf Helgason með skoti frá miðlínu. Það var svo eftir rúmlega háltíma leik sem téður Höskuldur braut ísinn fyrir heimamenn. Fyrirliðinn skoraði þá úr vítaspyrnu sem dæmd var á Orra Svein Segatta fyrir að brjóta á Ísaki Snæ Þorvaldssyni. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, var ekki par sáttur við þá ákvörðun Ívars Orra Kristjánssonar og ræddi þann dóm í þó nokkra stund við Vilhjálm Alvar Þórarinsson, fjórða dómara leiksins. Annað mark Blika kom svo í upphafi seinni hálfleiks en það mark úr nokkuð óvæntri átt. Viktor Örn Margeirsson skoraði þá eftir fyrirgjöf Arons. Boltinn hrökk fyrir fætur Viktors Arnar sem skoraði með hnitmiðuðu skoti. Eftir þetta mark var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Rúnar Páll gerði þrefalda skiptingu um miðjan seinni hálfleik og það kveikti smá glóð í sóknarleik Fylkis. Höskuldur rak aftur á móti síðasta naglann í líkkistu Fylkis þegar hann skoraði aftur úr víti sem Ísak Snær gerði vel í að fá. Ísak Snær sýndi mátt sinn og megin þegar hann hristi Ásgeir Eyþórsson af sér og Ásgeir nartaði í hæla framherjans og vítaspyrna réttilega dæmd. Sá litli kraftur sem var í Fylkisliðinu hvarf endanlega. Blikar héldu boltanum vel það sem eftir lifði leiks og uppspilið gekk smurt hjá þeim. Heimamenn fengu góðar stöður og fín færi til þess að bæta fleiri mörkum við en niðurstaðan öruggur 3-0 sigur. Breiðablik minnkaði forskoti Víkings á toppi deildarinnar í sex stig en Víkingru hefur 39 stig og Blikar 33 stig. Kópavogsliðið á leik til góða og getur andað hærra í hálsmálið á ríkjandi Íslansdmeisturum. Fylkir er hins vegar áfram í fallsæti en liðið hefur 12 stig líkt og Vestri á botni deildarinnar. HK, sem leikur við KR í umferðinni á fimmtudaginn kemur, er í næsta sæti fyrir ofan fallsvæði deildarinnar með 14 stig. Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.Vísir/Pawel Halldór Árnason: Mjög flottur seinni hálfleikur „Fylkismenn gerðu okkur erfitt fyrir, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir voru þéttir og við fengum fá afgerandi færi í fyrri hálfleik, mestmegnis bara langskot og annað í þeim dúr. Það var hins vegar allt annað að sjá okkur í seinni hálfleik og við náðum að opna þá betur. Boltinn gekk hraðar og ég var bara heilt yfir ánægður með spilamennskuna í seinni hálfleiknum. Við fundum taktinn og náðum að færa boltann hratt milli lína og koma okkur oftar í hættulegar stöður,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, sáttur. „Við skoruðu þrjú flott mörk og höfðum að lokum sigur sem við sigldum í höfn á sannfærandi hátt. Þegar þriðja markið kom þá var þetta endanlega í höfn. Við náðum að halda boltanum vel og hefðum hæglega getað skorað fleiri mörk. Við náðum að rúlla liðinu vel og vildum fá ferskleika með skiptingunum. Það tókst og ég er sáttur við það. Tumi Fannar Gunnarsson, ungur strákur, fær korter í þessum leik og hann stóð sig bara mjög vel sem er jákvætt,“ sagði Halldór enn fremur. Rúnar Pall: Þetta var aldrei víti „Mér fannst við bara spila heilt yfir vel í þessum leik. Þeir opnuðu okkur lítið sem ekkert og fá ekki mörg góð færi. Þeir skora fyrsta markið úr víti sem var bara aldrei víti. Það er klárt. Svo skora þeir eftir klafs þar sem Orri Sveinn er blokkaður. Ásgeir gerir svo ekki nógu vel þegar hann fær á sig í vítið í þriðja markinu,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis. „Eins og áður í sumar þá erum við ekki nógu skilvirkir í sóknarleiknum okkar. Það er ekkert launungarmál að við erum að leita að styrkingu í sóknarlínunni en það gengur hægt. Nikulás Val, sem er öflugur miðjumaður, er að skila fínu framlagi í framlínunni en það vantar brodd þar, það er ljóst. Vonandi náum við að landa sóknarmanni áður en glugginn lokar,“ sagði hann um sóknarleik lærisveina sinna. Það vakti athygli að Fylki sendi frá sér yfirlýsingu um korteri fyrir leik í kvöld þar sem svarað var fyrir umfjöllun Þungavigtarinnar um fjárhagsvandræði félagsins. Rúnar Páll vildi lítið segja um þá yfirlýsingu: „Hvað viltu að ég segi. Koma með einhverjar blammeringar hérna. Nei ég hef ekkert meira að segja um þetta mál en kemur fram í yfirlýsingunni. Við elskum þetta félag og ég er bara í vinnu fyrir Fylki og á meðan svo er þá geri ég mitt besta og legg mig allan fram við mín störf. Við stöndum allir saman í þessu og höfum fulla trú á því að við getum klifrað upp töfluna. Við höfum spilað vel í sumar og ég tel okkur eiga skilið að vera með fleiri stig. Einn til tveir sigurleikir í röð þá ertu kominn um miðja deild og ég er viss um að það muni gerast í næstu leikum. Nú þurfum við, já og þið fjölmiðlamenn líka, að fara að slaka aðeins og einbeita okkur að fótboltanum. Það er bara áfram gakk og næsti leikur sem skipti máli. Við hættum ekki fyrr en mótið er búið,“ sagði Rúnar Páll ákveðinn en um leið léttur í lundu. Rúnar Páll útskýrði svo hvers vegna fyrirliði liðsins, Ragnar Bragi Sveinsson, hóf leikinn á varamannabekknum: „Ragnar Bragi er kominn með fjögur spjöld og við héldum að bannið hans myndi taka gildi á þriðjudegi eins og vaninn er. Af þeim sökum vorum við búnir að undirbúa leikinn með Ragnar Braga ekki í byrjunarliðinu. Við vildum ekki breyta því þegar á hólminn var komið og þess vegna byrjaði hann á bekknum,“ sagði þjálfarinn þrautreyndi hreinskilinn. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, á hliðarlínunni. Vísir/Anton Brink Atvik leiksins Segja má að atvik leiksins hafi komið skömmu áður en leikurinn hófst en Fylkismenn sendu þá frá sér yfirlýsingu þar sem svarað var fyrir umfjöllun Þungavigtarinnar um fjárhagsvandræði félagsins. Athyglisverð tímasetning á þessari yfirlýsingu og kannski ekki gott veganesti í undirbúningi liðsins. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkisliðsins, hefur ekki farið leynt með það að hann vilji fá sóknarmann inn í leikmannahópinn en það gangi hægt. Þarna er mögulega komin skýring á því hvers vegna það gengur hægt að styrkja hópinn. Stjörnur og skúrkar Það er unun að horfa á Höskuld fá boltann í fætur í millisvæðinu, snúa með hann og skapa hættu með sendingum sínum. Fyrirliðinn gerði það trekk í trekk í þessum leik auk þess að setja boltann rétta leið af vítapunktinum í tvígang. Höskuldur hefur nú skorað sex mörk í deildinni í sumar. Aron Bjarnason var líflegur og hættulegur á hægri vængnum en hann lagði upp mark Viktors Arnar. Ísak Snær var svo ferskur í fremstu víglínu en hann nældi í tvær vítaspyrnur í leiknum. Að sama skapa var varnarleikur miðvarða Fylkis, Orra Sveins Segatta og Ásgeirs Eyþórssonar í báðum tilvikunum þar sem Ísak Snær náði í víti fremur klaufalegur. Theódór Ingi Óskarsson hleypti smá lífi í annars bitlausan sóknarleik Fylkis eftir að hann kom inná sem varamaður. Nikulás Val Gunnarssyni var vorkunn yfir hversu lítinn stuðning hann fékk frá liðsfélögnum sínum bæði í pressu og við sóknarleikinn. Dómarar leiksins Ívar Orri Kristjánsson og hans teymi áttu gott kvöld og báðir vítaspyrnudómarnir voru réttir. Leikurinn fékk að flæða vel og engar ákvarðanir sem orkuðu tvímælis. Þjálfarar og leikmenn fengu að blása innan marka og góð leikstjórn hjá kvartettnum. Stemming og umgjörð Leikurinn var spilaður við nánast fullkomnar aðstæður. Rigning og vökvun vallarstarfsmanna gerðu það að verkum að gervigrasið var hæfilega blautt til þess að boltinn flaut vel á milli leikmanna liðanna. Veðurguðirnir gerðu hlé á monsúnregninu sem lamið hefur landann í sumar rétt á meðan þessum fótboltaleik stóð og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það. Vel mætt á völlinn í kvöld og ung og vösk stuðningssveit Blika lét vel í sér heyra. Létt yfir mannskapnum sem fékk töluvert fyrir aurinn að þessu sinni.
Uppgjörið og viðtöl: Stjarnan - Fylkir 1-2 | Fylkir strengdi sterkari líflínu með sigri í Garðabænum