ÍA komst snemma yfir í leiknum og skoraði sitt fjórða mark með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks og staðan því 4-0 í hálfleik. Viktor skynjaði þó ekki þessa yfirburði sem hans lið hafði í leiknum í upphafi leiks.
„Ekki til að byrja með, en svo fundum við bara að mómentið var með okkur og við ætluðum okkur að nýta það. Við náðum inn þremur mörkum tiltölulega snemma, held ég, þetta er allt í móðu. Þegar leið á leikinn fundum við að við vorum alveg með yfirtökin og okkur langaði bara í meira. Við héldum í okkar konsept, við fórum aldrei fram úr okkur og vorum bara duglegir að vinna varnarvinnuna, þolinmóðir á boltann og það skilaði sér í þessum 8-0 sigri.“
Viktor hefur nú skorað 12 mörk í deildinni í sumar í 13 leikjum. Aðspurður út í þessa ógnvænlegu markaskorun sem og þá umræðu sem loðað hefur við hann í mörg ár, að hann eigi erfitt með að skora í efstu deild, þá svaraði Viktor því á þennan veg.
„Hefði verið fínt að fá fimmta, þá hefði þetta verið 13 mörk í 13 leikjum. Bara vá! Ótrúlega gaman að finna markið loksins í efstu deild. Þetta var náttúrulega hávær umræða í byrjun og það er bara gaman að geta loksins sýnt fólki hvað býr í mér, eitthvað sem ég vissi alltaf að byggi í mér og bara frábært að sýna það loksins. Ekki „loksins að ég vissi ekki að ég gæti þetta eða ekki“ eins og Gummi Ben sagði í Stúkunni um daginn. Ég vissi að ég gæti þetta og það er gott að geta loksins sýnt öðrum.“
Írskir dagar eru í fullum gangi á Akranesi þessa helgina sem endar með Lopapeysuballi í kvöld. Viktor segir liðið hafa verið staðráðið í því að taka þátt í fjörinu með því að sigra í dag.
„Við vorum staðráðnir í því að gera þetta að góðum degi. Þetta hefði náttúrulega getað orðið algjör hamfaradagur hefðum við tapað í dag. Menn náðu að halda sér á jörðinni og fókusera á leikinn og kvöldið verður bara enn betra fyrir vikið,“ sagði Viktor að lokum.