Enski boltinn

Tekur ekki við Chelsea sem vill ráða nýjan stjóra í vikunni

Aron Guðmundsson skrifar
Kieran McKenna mun ekki taka við stjórnartaumunum á Brúnni
Kieran McKenna mun ekki taka við stjórnartaumunum á Brúnni Vísir/Getty

Kieran McKenna, knattspyrnustjóri Ipswich Town mun ekki taka við Chelsea sem er í stjóraleit eftir að Mauricio Pochettino var sagt upp störfum á dögunum. Frá þessu greinir Sky Sports en talið er að þrír stjórar standi eftir sem mögulegir arftakar Pochettino á Brúnni. 

Kaveh Solhekol, blaðamaður Sky Sports, heldur því fram að forráðamenn Chelsea ætli sér að vera búnir að ganga frá ráðningu á nýjum knattspyrnustjóra í þessari viku. 

Þeir þrír knattspyrnustjórar sem talið er að standi eftir sem mögulegir arftakar Mauricio Pochettino séu þeir Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Leicester City og Roberto De Zerbi, fráfarandi knattspyrnustjóri Brighton. 

Forráðamenn Chelsea eru vissir um að þessir þrír knattspyrnustjórar búi yfir réttu kostunum sem knattspyrnustjóri Chelsea þarf að búa yfir. 

Knattspyrnustjórarnir Enzo Maresca, Roberto De Zerbi og Thomas Frank eru taldir standa eftir í leit Chelsea að nýjum stjóra.Vísir/Getty

Hinn 52 ára gamli Pochettino tók við Chelsea fyrir nýafstaðið tímabil. Hann átti ár eftir af samningi sínum ásamt því að það var möguleiki á eins árs framlengingu.

Chelsea endaði í 6.sæti í ensku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili og endaði tímabilið af krafti, vann síðustu fimm leiki sína í deildinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×