Enski boltinn

Pochettino farinn frá Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pochettino er orðinn atvinnulaus.
Pochettino er orðinn atvinnulaus. EPA-EFE/ANDY RAIN

Rétt í þessu var tilkynnt að Mauricio Pochettino hefði samþykkt að rifta samningi sínum við enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea.

Hinn 52 ára gamli Pochettino tók við Chelsea fyrir tímabilinu sem lauk nú um liðna helgi. Hann átti ár eftir af samningi sínum ásamt því að það var möguleiki á eins árs framlengingu.

Argentínumaðurinn hefur hins vegar samþykkt að rifta samningi sínum og er Chelsea því enn og aftur í þjálfaraleit.

Pochettino – sem hefur meðal annars stýrt Southampton, Tottenham Hotspur og París Saint-Germain - tók við liðinu eftir að Frank Lampard hafði stýrt því um tíma. Þar áður voru Graham Potter og Thomas Tuchel þjálfarar liðsins.

Talið er að sæti Pochettino hafi verið heitt nær allt tímabilið en honum tókst aldrei að ná því besta út úr leikmannahópi sem kostaði yfir milljarð sterlingspunda. 

Undir stjórn Pochettino endaði Chelsea í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 63 stig. Pochettino fór með liðið í úrslit enska deildarbikarsins þar sem það tapaði naumlega gegn Liverpool. Þá tapaði liðið einnig naumlega fyrir Manchester City í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar.

Ekki er ljóst hver tekur við Chelsea en Roberto De Zerbi, fráfarandi þjálfari Brighton & Hove Albion, hefur verið orðaður við starfið.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×