Íslenski boltinn

„Þegar við fengum sénsana þá tókum við þá“

Stefán Marteinn skrifar
Viktor Karl skoraði tvö í dag.
Viktor Karl skoraði tvö í dag. Visir/ Hulda Margrét

Breiðablik gerðu sér góða ferð í Úlfarsárdalinn þar sem þeir heimsóttu Fram og höfðu betur 1-4 í 8.umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Viktor Karl Einarsson skoraði tvö mörk í liði gestanna.

„Fagmannlega gert. Fyrri hálfleikurinn var erfiður og við áttum í erfiðleikum með að komast í gegnum þá. Þeir skora gott mark og við svörum þannig við fórum inn í hálfleik og ætluðum að nýta sóknirnar okkar betur sem og við gerðum,“ sagði Viktor Karl Einarsson leikmaður Breiðabliks eftir leikinn í dag.

Breiðablik skoraði þrjú mörk í síðari hálfleiknum og tryggðu öruggan sigur.

„Við vorum svolítið bara að keyra á þá þegar við fengum sénsana. Við vorum kannski bara svolítið aggressívari að keyra á þá þegar að við fengum þessi áhlaup og vorum bara ákveðnari í að setja hann í netið.“

„Ég held að það hafi svona verið munurinn á fyrri og seinni hálfleik að þegar við fengum sénsana að þá tókum við þá í seinni og það var held ég það sem skóp þennan sigur.“

Viktor Karl skoraði tvö mörk í dag og lagði upp annað að auki. Fyrra markið var afar glæsilegt en þá lyfti hann boltanum yfir Kyle McLagan og lagði hann svo framhjá Ólafi Ísholm í marki Fram.

„Ég fékk hann[boltann] einhvern veginn svona skoppandi og þetta kom bara einhvern veginn. Þetta var ekkert planað en bara gerðist og svo sá ég að ég var komin einn á móti markmanni að þá vissi ég að ég þyrfti bara að setja hann niðri og ég held að hann hafi farið í gegnum klofið á honum.“

„Það er örugglega hægt að kvarta yfir einhverju en heilt yfir held ég að hún hafi verið bara ágæt [frammistaðan] og spilamennska liðsins var held ég bara heilt yfir bara mjög góð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×