Veður

Þykknar upp síð­degis og hvessir í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu tíu til tuttugu stig um helgina og hlýjast á Norðausturlandi.
Hiti á landinu verður á bilinu tíu til tuttugu stig um helgina og hlýjast á Norðausturlandi. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir suðlægri átt í dag, fimm til tíu metrum á sekúndu en hvessa þegar líður á daginn.

Á vef Veðurstofunnar segir að það gangi í suðaustan átta til þrettán metra á sekúndu seinnipartinn um landið sunnan- og vestanvert með súld eða rigningu.

Hiti verður á bilinu fimm til þrettán stig og verður hlýjast á Austurlandi.

„Hvessir í nótt, suðaustan 13-20 og rigning á morgun en hægari og úrkomuminna austanlands. Hiti 9 til 15 stig yfir daginn,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Um helgina segir að það verði áframhaldandi suðaustanátt, rigning eða súld með köflum sunnanlands en bjart að mestu fyrir norðan. Hiti verður á bilinu tíu til tuttugu stig og hlýjast á Norðausturlandi.

Eftir helgi er útlit fyrir breytilegar áttir. Dálítil væta í fleirum landshlutum og frekar milt í veðri.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Vaxandi suðaustanátt, 13-20 m/s eftir hádegi, hvassast í vindstrengjum við fjöll á vestanverðu landinu. Víða rigning eða súld, en hægari vindur og þurrt að kalla norðaustan- og austanlands. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast norðaustantil.

Á laugardag og sunnudag: Suðaustan 5-13. Bjartviðri norðantil á landinu. Skýjað annars staðar og dálítil væta um landið suðaustanvert. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á mánudag: Breytileg átt. Skýjað að mestu og dálítil væta af og til í flestum landshlutum. Hiti 7 til 15 stig, svalast við austurströndina.

Á þriðjudag: Norðlæg eða breytileg átt og lítilsháttar væta en bjart með köflum sunnanlands. Hiti 5 til 12 stig, svalast við norðurströndina.

Á miðvikudag: Útlit fyrir norðaustlæga átt. Dálítil væta í flestum landshlutum en lengst af þurrt suðvestantil. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×