Erlent

OpenAI hættir notkun raddar eftir inn­grip lög­manna Johans­son

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Að sögn Johansson vildi Altman nota rödd hennar til að „brúa bilið“ milli gervigreindargeirans og skapandi geirans en OpenAI á yfir höfði sér fjölda málsókna vegna notkunar fyrirtækisins á verkum annarra við þróun ChatGPT.
Að sögn Johansson vildi Altman nota rödd hennar til að „brúa bilið“ milli gervigreindargeirans og skapandi geirans en OpenAI á yfir höfði sér fjölda málsókna vegna notkunar fyrirtækisins á verkum annarra við þróun ChatGPT. Getty/Sean Zanni/Patrick McMullan

Leikkonan Scarlett Johansson hefur gagnrýnt OpenAI eftir að fyrirtækið afhjúpaði nýjar raddir fyrir ChatGPT, meðal annars rödd sem þótti afar lík rödd Johansson.

Samkvæmt yfirlýsingu frá Johansson settu forsvarsmenn OpenAI sig í samband við leikkonuna fyrir um það bil níu mánuðum og óskuðu eftir því að hún yrði ein af röddum fyrirtækisins en hún hafnaði tilboðinu „af persónulegum ástæðum“.

Hún sagðist því hafa orðið reið þegar hún heyrði einn af nýjum raddmöguleikum ChatGPT, sem nánustu vinir og fjölmiðlar töldu að væri hún.

Röddin, sem var kölluð „Sky“ er sögð hafa verið sláandi lík rödd Johansson í myndinni „Her“. Í myndinni talar Johansson fyrir rödd gervigreindar-aðstoðarmanns á borð við Siri, sem persóna Joaquin Phoenix verður ástfangin af.

Það vekur athygli að Sam Altman, forstjóri OpenAI, allt að því viðurkenndi á Twitter að röddin væri byggð á rödd Johansson með því að birta tíst eftir kynningu á röddinni þar sem hann sagði einfaldlega „hún“.

Röddin var hins vegar tekin úr notkun í gær eftir að lögmenn Johansson settu sig í samband við ChatGPT. Í bloggfærslu sögðu talsmenn fyrirtækisins að rödd Sky væri ekki eftirherma af rödd Johanssen, heldur tilheyrði hún annarri ónefndri leikkonu.

Margir hafa lýst furðu á málinu og einnig röddinni sem slíkri, sem þótti afar daðursleg og kjánaleg.

„Hún er svona... „Ég bý yfir öllum upplýsingum í heiminum en ég veit ekki neitt,“ gantaðist leikkonan og grínistinn Desi Lydic í The Daily Show.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×