Enski boltinn

Hayes kvaddi Chelsea með fimmta titlinum í röð og Dag­ný komin í hóp

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emma Hayes fagnar einu sex marka Chelsea gegn Manchester United á Old Trafford.
Emma Hayes fagnar einu sex marka Chelsea gegn Manchester United á Old Trafford. getty/Robbie Jay Barratt

Chelsea tryggði sér enska meistaratitilinn fimmta árið í röð með stórsigri á Manchester United, 0-6, á Old Trafford í dag.

Þetta var síðasti leikur Chelsea undir stjórn Emmu Hayes. Hún hefur stýrt liðinu frá 2012 og gert það sjö sinnum að enskum meisturum og fimm sinnum að bikarmeisturum. Hayes er að hætta hjá Chelsea til að taka við bandaríska landsliðinu.

Fyrir lokaumferðina í dag voru Chelsea og Manchester City jöfn að stigum á toppi deildarinnar. Chelsea var hins vegar með betri markatölu og því í 1. sætinu. Og það var snemma ljóst að það myndi ekki breytast í dag.

Chelsea var komið í 0-2 eftir átta mínútur, var 0-4 yfir í hálfleik og vann leikinn að lokum, 0-6. Mayra Ramírez skoraði tvö mörk fyrir gestina og Johanna Rytting Kaneryd, Sjoeke Nusken, Melanie Leupolz og Fran Kirby sitt markið hver.

City vann 1-2 sigur á Aston Villa á sama tíma og endaði í 2. sæti deildarinnar.

Í fyrsta sinn eftir að hún eignaðist sitt annað barn var Dagný Brynjarsdóttir komin í hóp hjá West Ham United. Hún sat allan tímann á bekknum þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Tottenham, 3-1.

Vivianne Miedema lék kveðjuleik sinn fyrir Arsenal í dag. Hollenski framherjinn skoraði eitt marka liðsins í 5-0 sigri á Brighton.

Arsenal endaði í 3. sæti deildarinnar og fer í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili ásamt Chelsea og City.

Úrslit dagsins

  • Man. Utd. 0-6 Chelsea
  • Aston Villa 1-2 Man. City
  • Tottenham 3-1 West Ham
  • Arsenal 5-0 Brighton
  • Bristol City 0-4 Everton
  • Leicester 0-4 Liverpool



Fleiri fréttir

Sjá meira


×