FarCargo keypti þotuna í þeim megintilgangi að flytja ferskan eldislax úr sjókvíum Bakkafrosts, stærsta fyrirtækis Færeyinga, með sem skemmstum hætti á verðmæta markaði bæði í Evrópu og Ameríku. Var komu hennar fagnað með viðhöfn í byrjun marsmánaðar að viðstöddum helstu ráðamönnum eyjanna.
Það þótti því heldur en ekki neyðarlegt þegar í ljós kom að flugvélin mátti ekki nota flugvöllinn þar sem vænghaf hennar var of breitt miðað við öryggisflokkun vallarins. Vogaflugvöllur var skráður með viðmiðunarkóða C, sem leyfir allt að 36 metra breitt vænghaf, en 757-þotan er með 41 metra vænghaf. Í C-flokki eru þotur eins og Airbus A-320 og Boeing 737.

Málið var leyst til bráðabirgða með því að danska samgöngustofan veitti einskiptis undanþágu fyrir flugvélina svo hún mætti lenda í Færeyjum. Sú undanþága var síðan framlengd meðan leitað var varanlegrar lausnar en á meðan er vélin búin að fljúga fjölda ferða með lax, einkum til New York og Brussel.
Kringvarp Færeyja greindi frá því í dag að dönsk samgönguyfirvöld væru núna búin að höggva á hnútinn. Niðurstaðan er sú að Vogaflugvöllur verður frá og með 1. maí færður upp í viðmiðunarkóða D. Það þýðir að flugvélar með allt að 52 metra vænghaf mega lenda í Færeyjum frá mánaðamótum. Í þeim flokki eru auk 757-þotunnar breiðþotur eins og Boeing 767 og Airbus A-330.