Enski boltinn

Ten Hag strunsaði út af blaða­manna­fundi: „Vitum að þetta er ekki nógu gott“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ten Hag á hliðarlínunni í dag.
Ten Hag á hliðarlínunni í dag. Catherine Ivill/Getty Images

Erik ten Hag, þjálfari Manchester United, viðurkenndi að lið sitt hefði ekki átt skilið að vinna Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í gær, laugardag. Þá gagnrýndi hann leikmenn sína fyrir slakan fyrri hálfleik. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli.

„Við töpuðum boltum á stöðum sem þú mátt ekki tapa boltanum og vorum ekki nægilega skipulagðir, sérstaklega á hægri vængnum,“ sagði Ten Hag eftir leik en hann tók Alejandro Garnacho af velli í hálfleik. Argentínumaðurinn tapaði boltanum klaufalega á hættulegu svæði í aðdraganda fyrra marks Bournemouth.

„Það eru störf sem þarf að sinna og þeim var ekki sinnt öllum stundum. Fyrra markið kemur þegar við erum í góðri stöðu en töpum boltanum, það á ekki að gerast.“

„Við höfum leikmenn sem geta farið betur með boltann. Á hægri vængnum, fylgdu bara andstæðingnum. Við höfum allir verk að vinna.“

„Við erum með lið sem er erfitt að brjóta á bak aftur. Tvívegis komum við til baka en við áttum ekki að koma okkur í stöðu til að tapa leiknum til að byrja með.“

Man United er nú tíu stigum frá Meistaradeildarsæti og stefnir í versta tímabil liðsins í manna minnum. Tímabilið eftir að Sir Alex Ferguson hætti endaði Man United í 7. sæti með 64 stig. Liðið er aðeins með 50 stig nú að loknum 32 leikjum og þarf því að finna fimm af síðustu sex til að bæta „árangur“ tímabilsins 2013-14.

„Vitum að þetta er ekki nógu gott. Í dag áttum við ekki meira skilið. Ef þú gefur andstæðingnum svona mörg færi í fyrri hálfleik þá áttu ekki meira skilið. Þú verður að taka stjórn,“ sagði Ten Hag að endingu.

Er hann var spurður út í þann möguleika að liðið gæti endað í 8. sæti, sem væri versta niðurstaða liðsins í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi hennar árið 1992 þá ákvað Hollendingurinn einfaldlega að yfirgefa blaðamannafundinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×