Íslenski boltinn

„Við getum bætt okkur miklu meira en hin liðin“

Sverrir Mar Smárason skrifar
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, var stoltur af liði sínu í dag en svekktur með úrslitin.
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, var stoltur af liði sínu í dag en svekktur með úrslitin. Visir/ Hulda Margrét

Vestri tapaði öðrum leik sínum í röð í Bestu deild karla þegar liðið heimsótti Breiðablik á Kópavogsvöll í dag, 4-0. Davíð Smári Lamude, þjálfari nýliðanna, var svekktur með úrslitin eftir að hafa farið með jafna stöðu inn í hálfleik.

„Fyrri hálfleikurinn var ekki alveg fullkominn. Mér fannst við ekki nægilega góðir á boltann en góðir varnarlega og mikil bæting frá síðasta leik. Við fáum mark á okkur snemma í síðari hálfleiknum sem breytir þessu og svo einhverjir dómar sem að falla ekki með. Augnablikið fer svolítið frá okkur þegar við gefum vítið. Þetta var leikur fram að vítinu. Ég ætla bara að vera hreinskilinn, ég er gríðarlega stoltur af mínu liði. Stoltur af því hvar við erum og það er auvðitað margt sem er ekki nægilega gott en við erum bara á öðrum stað en hin liðin. Við getum bætt okkur miklu meira en hin liðin. Blikarnir eru ekkert alltof langt frá sínu besta en mitt lið er lengst af öllum frá sínu besta. Það veit á gott þó svo ég sé ekki sáttur með úrslitin og alls ekki sáttur með seinni hálfleikinn,“ sagði Davíð Smári.

Elvar Baldvinsson, varnarmaður Vestra, fékk að líta beint rautt spjald fyrir tæklingu um miðjan síðari hálfleikinn. Umdeild ákvörðun hjá dómara leiksins.

„Ég held þetta sé ekki rautt spjald. Ég skal viðurkenna það að ég er ekki búinn að sjá þetta í sjónvarpi en mér finnst þetta mjög harður dómur,“ sagði Davíð um rauða spjaldið.

Gestunum gekk illa að sækja að marki Blika í dag og sköpuðu sér varla eitt færi í leiknum.

„Mér fannst bara svona þessar stuttu, einföldu sendingar og sendingar fram á við voru ekki nógu góðar. Við náum ekki að sækja hratt á þá þegar við vinnum boltann. Þá töpum við boltanum fljótt aftur og náum aldrei takti í að sækja á þá. Náum illa að fylla teiginn þeirra þar af leiðandi þar sem við eruma lltaf stutt með boltann,“ sagði Davíð.

Andri Rúnar Bjarnason kom inná í dag og fékk nokkrar mínútur. Það gekk þó erfiðlega þar sem hann var inná í mjög erfiðri stöðu. Hann hefur verið að koma til baka eftir meiðsli.

„Við vorum inni í leiknum og svo kemur vítið þegar hann er við það að labba inn á völlinn. Augnablikið fór frá okkur. En eins og ég segi þá er ég bara stoltur af mínu liði. Auðvitað eru mörk þarna sem eru ekki nægilega góð og við þurfum að laga. Við þurfum að horfa fram vegin og reyna að bæta okkur fyrir næsta leik,“ sagði Davíð Smári að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×