Erlent

Táningar sakaðir um skipu­lagningu hryðjuverkaárása

Samúel Karl Ólason skrifar
Viðbúnaðarstig vegna mögulegra hryðjuverka hefur verið hækkað.
Viðbúnaðarstig vegna mögulegra hryðjuverka hefur verið hækkað. EPA/HANNIBAL HANSCHKE

Lögregluþjónar í Þýskalandi hafa handtekið fjóra táninga, tvo drengi og tvær stúlkur, sem grunuð eru um undirbúning hryðjuverkaárása í nafni Íslamska ríkisins. Þrjú voru handtekinn í Norðurrín Vestfalíu og einn í Stuttgart.

Þremenningarnir, sem eru fimmtán og sextán ára, eru grunuð um að hafa ætlað að fremja morð. Sextán ára unglingur í Stuttgart er sakaður um að hafa undirbúið alvarlegan glæp sem ógna myndi öryggi ríkisins.

Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar hafa frekari upplýsingar ekki verið gefnar upp.

Í frétt DW er haft eftir heimildarmönnum að málið byggi á samskiptum milli ungmennanna. Þar eru þau sögð hafa rætt um að gera árásir í kirkjum og lögreglustöðvum í Dortmund, Düsseldorf og Köln með hnífum og bensínsprengjum.

Við leit í Düsseldorf hafi fundist sveðja og rýtingur en engar bensínsprengjur fundust eða efni til sprengjugerðar.

DW segir einnig að faðir sextán ára drengsins í Düsseldorf sé þekktur af lögreglu og hann hafi verið grunaður um að safna peningum fyrir Íslamska ríkið.

Viðbúnaðarstig í Þýskalandi vegna mögulegra hryðjuverkaárása hefur verið hækkað vegna stríðsins á Gasaströndinni og árásar Íslamska ríkisins í Khorasan eða ISKP í Moskvu á dögunum. Viðbúnaðarstig hefur einnig verið hækkað í Frakklandi, þar sem ólympíuleikarnir verða haldnir í sumar.

Ráðamenn í Þýskalandi segja hættuna á hryðjuverkaárásum vera hærri um þessar mundir en hún hafi verið í langan tíma. Þjóðverjar segjast hafa komið í veg fyrir eina árás fyrr á þessu ári og voru þar á ferðinni menn frá Tadsíkistan sem taldir eru aðhyllast boðskap ISKP.

Þá voru tveir menn frá Afganistan handteknir í Þýskalandi í síðasta mánuði en þeir eru grunaðir um að hafa ætlað sér að gera árás á sænska þingið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×