Erlent

Sölu­básar Kristjáníu fjar­lægðir og Pusher-stræti lokað

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sölubásarnir voru fjarlægðir í morgun.
Sölubásarnir voru fjarlægðir í morgun. EPA/Mads Claus Rasmussen

Hinu alræmda Pusher-stræti í Kristjáníu í Kaupmannahöfn verður lokað og vonast er til þess að kannabissalan sem hefur einkennt hana í áratugi muni heyra sögunni til.

Í morgun voru sölubásarnir sem notaðir eru til að selja fíkniefni fjarlægðir af götunni og klukkan níu í morgun hófst vinna við að bókstaflega grafa götuna upp. Malbikið verður fjarlægt af götunni af hópi íbúa í Kristjáníu í samstarfi við ríkið, borgina og lögreglu. Ástæðan fyrir því að malbikið sé grafið upp er sú að vonast er eftir því að útlitsbreytingin muni leiða til sálfræðilegar breytingar.

„Ef maður breytir einhverju útlitslega þá er mjög líklegt að það breyti einhverju sálfræðilega,“ hefur danska ríkisútvarpið eftir Huldu Mader talsmanni íbúahópsins sem stendur fyrir aðgerðunum.

Öllum er velkomið að taka þátt í framkvæmdunum og er fólki einnig velkomið að taka með sér götustein heim sem minjagrip. Hulda segir allri Danmörku vera boðið.

Pusher-stræti hefur verið horn í síðu lögreglunnar í Kaupmannahöfn í áratugi vegna starfsemi glæpagengja þar en ákveðið var að ganga í framkvæmdir nú vegna nokkurra morða sem framin hafa verið þar síðustu ár. Í ágúst í fyrra var þrítugur maður myrtur á Pusher-stræti og fjórir gestir urðu fyrir skoti.

Eftir það hófst margra mánaða samstarf íbúa, lögreglunnar, borgarinnar og dómsmálaráðuneytisins með það að leiðarljósi að loka götunni endanlega. Til að binda enda á fíkniefnasöluna og ofbeldið sem fylgir er ætlunin að gera götuna alveg upp.

Hvernig endanlegt útlit hennar verður liggur ekki fyrir en ætlun íbúa er að gatan verði verslunar- og menningargata. Kaupmannahafnarborg og danska ríkið hefur lagt til tæpar þrjátíu milljónir danskra króna í verkefnið sem nemur sexhundruð milljónum íslenskra.

„Ég vona að hún geti orðið fallegt aðalstræti, ný lífæð Kristjáníu. Huggulegur staður til að verja tíma á án harðra glæpamanna. Ég hlakka til þess,“ segir Hulda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×