Liver­pool mis­tókst að ná topp­sætinu eftir spennu­trylli

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mohamed Salah gat ekki leynt vonbrigðum sínum í leiknum í dag.
Mohamed Salah gat ekki leynt vonbrigðum sínum í leiknum í dag. Vísir/Getty

Eftir ágæta byrjun United í upphafi þar sem liðið fékk þrjár hornspyrnur á fyrstu tíu mínútunum tók Liverpool algjörlega yfir í fyrri hálfleiknum. Liðið átti hvert færið á fætur öðru en og skoraði fyrsta mark leiksins þegar Luis Diaz skoraði eftir að Darwin Nunez flikkaði hornspyrnu yfir á fjærstöngina þar sem Diaz var á auðum sjó.

Eftir þetta fékk Liverpool fleiri færi til að skora en nýtti þau ekki, knattspyrnustjóranum Jurgen Klopp til mikillar gremju á hliðarlínunni. 

Staðan í hálfleik var 1-0 og gátu leikmenn Manchester United prísað sig sæla með þá stöðu.

Ótrúlegur viðsnúningur

Strax í upphafi síðari hálfleik urðu Jarrell Quansah hins vegar á slæm mistök. Hann átti þá sendingu inn á miðjan völlinn en tók ekki eftir Bruno Fernandes sem var þar og beið. Fernandes var ekki lengi að hugsa, skaut að marki og yfir Caoimhín Kelleher sem var langt fyrir utan vítateiginn.

Eftir þetta kom aukinn kraftur í lið United. Þeir komust betur og betur inn í leikinn og á 67. mínútu skoraði Kobbie Mainoo frábært mark þegar hann sneri sér við í teignum og smurði boltanum í fjærhornið. Óverjandi fyrir Kelleher.

Tryggði Liverpool eitt stig

Lið Liverpool pressaði United mikið eftir mark Mainoo. Bæði lið gerðu breytingar á sínum liðum og það var árangur hjá Liverpool. Varamaðurinn Harvey Elliott fékk þá boltann í teignum og var tekinn niður afar klaufalega af Aaron Wan Bissaka.

Mohamed Salah skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni og jafnaði í 2-2. Það sem eftir lifði leiks sótti Liverpool meira og Luis Diaz fékk fínt færi í uppbótartíma til að skora en skóflaði boltanum yfir úr teignum.

Lokatölur 2-2 í frábærum fótboltaleik en leikmenn beggja liða naga sig eflaust í handarbökin með úrslitin. Leikmenn United fyrir að hafa misst niður forystu undir lokin en leikmenn Liverpool fyrir að hafa ekki nýtt yfirburði liðsins í fyrri hálfleik betur.

Arsenal er nú efst í ensku úrvalsdeildinni á markatölu en Liverpool í öðru sæti með jafn mörg stig. Manchester City er síðan í þriðja sætinu þremur stigum á eftir.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira