Veður

Appel­sínu­gul við­vörun á vegna norð­austan hríðar

Atli Ísleifsson skrifar
Norðaustan hríð skall á norðvesturhluta landsins í morgun.
Norðaustan hríð skall á norðvesturhluta landsins í morgun. Veðurstofan

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun vegna norðaustan hríðar sem hefur skollið á norðvesturhluta landsins. Gular viðvaranir hafa sömuleiðis verið gefnar út við Faxaflóa, Breiðafjörð og Ströndum og Norðurlandi vestra.

Gul viðvörun hefur þegar tekið gildi á Vestfjörðum en á miðnætti breytist hún svo í appelsínugula þar sem spáð er norðaustan 18 til 25 metrum á sekúndu og snjókomu. 

„Búast má við skafrenning með takmörkuðu eða lélegu skyggni og samgöngutruflanir eru líklegar, lokanir á vegum og tafir í flugsamgöngum. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Búið er að lýsa yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum.

Gul viðvörun tók gildi á Faxaflóasvæðinu klukkan 10 og verður í gildi til klukkan 10 á morgun. „Norðaustan 15-23 m/s og snjókomu til fjalla, einkum norðantil á svæðinu. Búast má við skafrenningi með takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Afmarkaðar samgöngutruflanir eru líklegar, lokanir á vegum. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.“

Gul viðvörun tók gildi á Breiðafirði klukkan 10 í morgun og verður í gildi fram á kvöld á morgun. Er þar spáð norðaustan 15 til 23 metrum á sekúndu og snjókomu. Búast má við skafrenning með takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Á Ströndum og Norðurlandi vestra tekur gul viðvörun gildi vegna norðaustan hríðar á hádegi í dag og verður í gildi í sólarhring.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×