Veður

Slydda og snjó­koma á vestan­verðu landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður um eða yfir frostmarki suðvestanlands, en annars núll til átta stiga frost.
Hiti verður um eða yfir frostmarki suðvestanlands, en annars núll til átta stiga frost. Vísir/Vilhelm

Skammt suðvestur af Reykjanesi er nú þúsund millibara lægð sem mjakast norður og fylgir henni slydda eða snjókoma á vestanverðu landinu. Má reikna með vindi átta til fimmtán metrum á sekúndu.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði hægari og þurrt austantil, en dálítil snjókoma þar í kvöld. Hiti verður um eða yfir frostmarki suðvestanlands, en annars núll til átta stiga frost.

„Minnkandi suðaustanátt á morgun og hlýnar heldur. Rigning eða slydda á Suðausturlandi og Austfjörðum, en úrkomulítið í öðrum landshlutum. Það er stutt í kalt loft fyrir norðan land og síðdegis er búist við vaxandi norðaustanátt á Vestfjörðum með lítilsháttar snjókomu og kólnandi veðri.

Á sunnudag er útlit fyrir hvassa norðaustanátt og hríðarveður, en hægari vind og rigningu eða slyddu sunnan- og austanlands. Þeim sem hyggja á ferðalög er bent á að fylgjast vel með fréttum af færð og veðri,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Minnkandi suðaustanátt og hlýnar, 3-8 m/s seinnipartinn og hiti víða 0 til 5 stig. Rigning eða slydda suðaustantil, en lítilsháttar úrkoma með köflum í öðrum landshlutum. Vaxandi norðaustanátt á Vestfjörðum um kvöldið og kólnar.

Á sunnudag: Norðaustan 15-23 á Norðvestur- og Vesturlandi, snjókoma eða él og vægt frost. Mun hægari vindur sunnan- og austantil, rigning eða slydda með köflum og hiti 0 til 5 stig.

Á mánudag: Hvöss norðanátt norðvestantil á landinu, annars hægari vindur. Snjókoma eða él og frost 1 til 8 stig, en hlýrra suðaustan- og austantil fram eftir degi með dálítilli rigningu eða slyddu. Herðir á frosti um kvöldið.

Á þriðjudag og miðvikudag: Norðan- og norðvestanátt og él, en úrkomulítið sunnan heiða. Kalt í veðri

Á fimmtudag: Útlit fyrir austanátt með snjókomu eða slyddu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×