Íslenski boltinn

„Það sem maður er spenntastur fyrir en á sama tíma óttast hvað mest“

Aron Guðmundsson skrifar
Baldur Sigurðsson, reynslubolti úr efstu deild hér á landi og sérfræðingur Stöðvar 2 sport um Bestu deildina, ræddi við Vísi um stórtíðindi dagsins í íslenska boltanum. Gylfi Þór Sigurðsson er orðinn leikmaður Vals.
Baldur Sigurðsson, reynslubolti úr efstu deild hér á landi og sérfræðingur Stöðvar 2 sport um Bestu deildina, ræddi við Vísi um stórtíðindi dagsins í íslenska boltanum. Gylfi Þór Sigurðsson er orðinn leikmaður Vals. Vísir/Samsett mynd

Fé­lags­skipti Gylfa Þórs Sigurðs­sonar eru klár­lega stærstu fé­lags­skiptin í sögu ís­lenska boltans að mati Baldurs Sigurðs­sonar, sér­fræðings Stöðvar 2 Sport um Bestu deildina. Lyfti­stöng fyrir fé­lagið og ís­lenska boltann í heild sinni. Hvaða Gylfa Þór erum við að fara sjá inn á vellinum? Og hversu mikið fáum við að sjá til hans? 

„Þetta eru, hundrað prósent, stærstu fé­lags­skipti í sögu ís­lenska boltans. Eiður Smári kemur heim á sínum tíma, ungur til KR, og tekur svo stökkið yfir til Bol­ton og hefur sinn feril þá af ein­hverju viti. Þá var hann ekki orðið þetta stóra nafn í knatt­spyrnu­heiminum sem hann átti síðan eftir að verða. Gylfi kemur núna heim á loka­stigum síns leik­manna­ferils,“ segir Baldur í sam­tali við Vísi um stór­tíðindi dagsins. Gylfi Þór Sigurðs­son leikur heima á Ís­landi á næsta tíma­bili. Hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við Val.

Yrði algjör draumur

Hvaða væntingar megum við leyfa okkur að gera í garð Gylfa Þórs í þessari heim­komu hans? Hann hefur verið meiddur upp á síð­kastið. Hvaða Gylfa erum við að fara að sjá?

„Það er það sem maður er spenntastur fyrir en á sama tíma óttast hvað mest. Það sem maður óttast mest er að Gylfi Þór verði mikið frá vegna meiðsla. Nái ekki upp takti eins og raunin hefur verið upp á síð­kastið hjá honum. 

Maður veit náttúru­lega ekkert hvernig hann æfir og hefur verið að æfa hjá Lyng­by. Hvað hann hefur verið að gera. Utan frá virðist staða hans dá­lítið við­kvæm. Eðli­lega. Bæði er hann kominn á þessi seinni stig ferilsins og þá kom þetta gat í leik­manna­feril hans.

Upp á síð­kastið hefur hann þó verið að æfa úti á Spáni, bæði með Fylki og svo Val. Vals­menn hafa væntan­lega á­kveðna mynd af stöðu mála hjá honum og hafa að öllum líkindum látið hann fara í ein­hvers konar læknis­skoðun í að­draganda þessara fé­lags­skipta. Tekið stöðu­tékk á honum sem maður reiknar með, í ljósi nýjustu vendinga, að hafi komið vel út. 

Í fram­haldinu hafi þjálfara­t­eymi Vals í huga á­kveðið plan með hann. Það yrði al­gjör draumur, ekki bara fyrir Val heldur fyrir deildina, ef Gylfi Þór myndi spila í hverri viku. Þótt að Gylfi Þór væri að­eins 80% af því sem við sáum þegar að hann var upp á sitt besta þá yrði hann náttúru­lega einn besti, ef ekki besti leik­maður deildarinnar.“

Gylfi Þór Sigurðsson og Arnar Grétarsson þjálfari Vals eftir undirskriftina í morgun.Valur

Klár lyftistöng

Gylfi Þór fékk samningi sínum við danska fé­lagið Lyng­by rift í janúar. Það gerði hann til þess að sinna endur­hæfingunni sinni í gegnum meiðslin, sem hafa verið að hrjá hann, án þess að þiggja laun frá Lyng­by.

Undan­farnar vikur hefur Gylfi Þór sinnt endur­hæfingunni á Spáni undir hand­leiðslu sjúkra­þjálfarans Frið­riks Ellerts Jóns­sonar. Á­kvörðun sem gefur manni vís­bendingar um að hann hafi alls ekki viljað gefa ferilinn upp á bátinn.

„Vanga­velturnar á sínum tíma snerust um það hvort að Gylfi Þór væri að í­huga að láta gott heita svona kjöl­far þess að endur­koma hans í boltann varð fyrir bak­slagi með þessum meiðslum. Að líkaminn væri kannski að segja honum að fara hætta þessu. Þá er þetta and­lega lýjandi. Að reyna koma sér aftur af stað en lenda í því að meiðast.“

Gylfi Þór í leik með íslenska landsliðinu

Krafan á titil eykst

„Maður hefur heyrt það innan úr her­búðum Vals að þessi fé­lags­skipti séu að gefa leik­mönnum mikið. Þetta lyftir þeim öllum upp. Leik­mönnum Vals finnst það spennandi þegar að svona nafn stimplar sig inn. Þetta er klár­lega mikil lyfti­stöng fyrir Val en á sama tíma eykur þetta líka pressuna á liðið fyrir komandi tíma­bil í Bestu deildinni.

Við vissum hver krafan var fyrir komu Gylfa. Krafan núna á Val að landa Ís­lands­meistara­titlinum núna er orðin meiri. Sér í lagi ef Gylfi Þór helst heill.“

Lið Víkings Reykjavíkur, tvöfaldir meistarar á síðasta tímabiliVísir/Hulda Margrét

Horft hefur verið á ríkjandi Ís­lands- og bikar­meistara Víkings Reykja­víkur sem lík­legasta liðið til þess að hampa Ís­lands­meistara­titlinum á nýjan leik að komandi tíma­bili af­loknu og að Valur sé það lið sem helst geti skákað ríkjandi Ís­lands­meisturunum í bar­áttunni.

Baldur er enn á því, þrátt fyrir komu Gylfa, að Víkingur fari inn í komandi tíma­bil sem lík­legasta liðið til af­reka.

„Þetta er orðið jafnara núna. Ég myndi enn spá Víkingum Ís­lands­meistara­titlinum. Það er þá líka sökum ó­vissunnar hvernig staðan á Gylfa Þór er. Við skulum gefa Víkingum þá virðingu, miðað við það sem þeir hafa gert, að spá þeim titlinum. Munurinn milli Víkings og Vals stóð kannski í metrum. Við erum farin að tala um aðra einingu núna, sentí­metra eða jafn­vel milli­metra. Það stefnir í býsna skemmti­legt mót.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×