Enski boltinn

Rodri hefur ekki tapað í síðustu 59 leikjum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rodri í baráttunni við Scott McTominay í Manchester slagnum um helgina.
Rodri í baráttunni við Scott McTominay í Manchester slagnum um helgina. Getty/Robbie Jay Barratt

Manchester City miðjumaðurinn Rodri sett nýtt met í ensku úrvalsdeildinni í sigurleiknum á móti Manchester United í gær. Enginn hefur spilað fleiri leiki í röð án þess að tapa.

Leikurinn í gær var 59 leikur Rodri í röð án þess að tapa. Hann tapaði síðasta leiknum sínum á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í febrúar 2023.

Gamla metið átti Ricardo Carvalho sem lék 58 leiki í röð án þess að tapa með Chelsea frá nóvember 2006 til febrúar 2008.

Það lengsta sem eitt lið hefur farið taplaust í deildinni var Arsenal sem lék 49 leiki í röð án þess að tapa frá maí 2003 til október 2004. Þar á meðal er eitt heilt tímabil (2003-04) sem tryggði Arsenal liðinu nafnið The Invincibles.

Rodri er þegar kominn tíu leikjum fram úr því meti.

Rodri hefur misst af ellefu leikjum á þessum tíma og City liðið hefur tapað fimm af þeim leikjum.

Einu tapleikir liðsins i úrvalsdeildinni á þessu tímabili eru leikirnir þrír þar sem Rodri hefur ekki notið við. Það er 2-1 tap á móti Wolves, 1-0 tap á móti Arsenal og 1-0 tap á móti Aston Villa.

Rodri missti af þremur leikjum í haust eftir að hafa fengið rautt spjald á móti Nottingham Forest í september. Liðið vann engan af þeim leikjum, tvö töp í deild og eitt í deildabikar.

Rodri átti tvær stoðsendingar í sigrinum á United og er alls með sex mörk og sex stoðsendingar í 24 deildarleikjum á þessari leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×