Íslenski boltinn

Leik­menn verða ekki laun­þegar og fá ekki fjögurra vikna frí

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arnar Sveinn Geirsson, formaður Leikmannasamtaka Íslands, talaði fyrir tillögum samtakanna á ársþingi KSÍ.
Arnar Sveinn Geirsson, formaður Leikmannasamtaka Íslands, talaði fyrir tillögum samtakanna á ársþingi KSÍ. vísir / einar

Leikmannasamtök Íslands fengu hugmyndum sínum ekki framfylgt á 78. ársþingi KSÍ. Tillögu um launþegasamninga leikmanna var vísað frá og tillaga um sumarfrí var felld með afgerandi hætti. 

Breiðablik, FH, Valur og Víkingur, lögðu til að vísa frá fyrri tillögu Leikmannasamtakanna. 

Tillagan sneri að því að einfalda reglur og taka út allan vafa um greiðslur og launatengd gjöld leikmannasamninga. Samningur hefðu þá verið með tvenns konar hætti, áhugamanna- og atvinnumannasamningar, sem hvor um sig hefði skýrt regluverk kringum sig. 

Tillagan naut ekki góðs hljómgrunns, fjárhags- og endurskoðunarnefnd, knattspyrnu- og þróunarnefnd auk samninga- og félagsskiptanefndar settu sig öll upp á móti henni. 

Auk þess lögðu Leikmannasamtök Íslands fram aðra tillögu, um sumarhlé sem varir í að minnsta kosti fjórar vikur, og myndi skipta deildinni í vor- og haust tímabil. Þar fengju leikmenn að minnsta kosti 14 daga samfleytt frí frá skipulögðum æfingum hjá sínum félagsliðum.

Arnar Sveinn Geirsson, formaður Leikmannasamtakanna, bar það fyrir sér að rúmlega sextíu prósent leikmanna væru meðfylgnir hugmyndinni um frí. Þá sagði hann verktakasamningana sem tíðkast víða ekki uppfylla kröfur atvinnumannadeildar.

Breytingartillaga var samþykkt um að breyta orðalagi þannig að fríið yrði í þrjár vikur, 7 daga samfleytt frá skipulögðum æfingum. 

Tillaga Leikmannasamtakanna um sumarhlé fór fyrir atkvæðagreiðslu, með breytingum, og var felld. 27 greiddu atkvæði með og 110 á móti. 

78. ársþing KSÍ fer fram í Úlfarsárdal. Kosið verður um nýjan formann innan skamms og fylgst verður með gangi mála hér á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×