Fyrir­liðinn tryggði Liverpool titilinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Virgil Van Dijk fagnar markinu með Kostas Tsimikas sem lagði það upp
Virgil Van Dijk fagnar markinu með Kostas Tsimikas sem lagði það upp John Powell/Liverpool FC via Getty Images

Liverpool vann Chelsea 1-0 í framlengdum úrslitaleik um enska deildarbikarinn á Wembley. Fyrirliðinn Virgil Van Dijk skoraði sigurmark Liverpool á 118. mínútu.

Fyrsta dauðafæri leiksins leit dagsins ljós á 21. mínútu úr hættulegri sókn Chelsea upp hægri vænginn. Andy Robertson var mættur aftur sem vinstri bakvörður í byrjunarlið Liverpool en gleymdi sér aðeins og skildi Cole Palmer eftir í góðu plássi.

Palmer battaði boltann á Raheem Sterling og kom svo skoti að marki en Caomhin Kelleher, markvörður Liverpool, kastaði sér að knettinum og bjargaði marki.

Moises Caicedo steig fast á ökkla Ryan Gravenberch en ekkert brot var dæmt. Leikmenn og þjálfari Liverpool kölluðu eftir rauðu spjaldi en fengu ekkert fyrir sinn snúð. Gravenberch var borinn af velli og Joe Gomez kom inn í hans stað.

Ekki gerði það bragarbót á liði Liverpool sem var þegar að glíma við mikil meiðslavandræði. Mohamed Salah, Darwin Nunez, Trent Alexander-Arnold, Dominik Szoboslai, Curtis Jones og Diogo Jota voru allir frá keppni í dag.

Chelsea kom boltanum í netið á 32. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Cody Gakpo komst svo hársbreidd frá því að taka forystuna fyrir Liverpool þegar hann skallaði boltann í stöngina á 40. mínútu.

Fyrirliðinn Virgil Van Dijk skoraði ólöglegt mark fyrir Liverpool á 59. mínútu eftir fyrirgjöf Andy Robertson úr aukaspyrnu. Markið var dæmt af vegna þess að Wataru Endo var rangstæður og truflaði varnarmann í aðdraganda marksins.

Conor Gallagher fékk tækifæri til að tryggja Chelsea sigur undir lok leiks en aftur kom Caomhin Kelleher Liverpool til bjargar og varði vel einn á einn gegn Gallagher.

Aftur komst Chelsea nálægt því að vinna leikinn í uppbótartíma en boltinn vildi ekki inn og liðin skildu jöfn að venjulegum leiktíma loknum.

Bæði lið fengu sína sénsa til að vinna leikinn í framlengingu en það var Liverpool sem skoraði markið. Aftur var það fyrirliðinn sem skallaði boltann í netið, í þetta sinn úr hornspyrnu, og í þetta sinn löglega.

Tíminn sem eftir var reyndist Chelsea of knappur, fleiri urðu mörkin ekki og Liverpool hampaði deildarbikarmeistaratitlinum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira