Erlent

Úkraínu­menn að hörfa frá Avdívka

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn á ferðinni nærri Avdívka.
Úkraínskir hermenn á ferðinni nærri Avdívka. Getty/Vlada Liberova

Úkraínskir hermenn virðast vera að hörfa frá borginni Avdívka eða hluta hennar, í austurhluta Úkraínu, eftir umfangsmiklar árásir Rússa á borgina frá því í október. Skotfæraleysi hefur leikið úkraínska hermenn grátt á undanförnum vikum en Úkraínumenn eru sömuleiðis sagðir glíma við skort á hermönnum.

Þetta er fyrsta borgin í Úkraínu sem fellur í hendur Rússa frá því þeir lögðu rústir Bakhmut undir sig í maí í fyrra.

Avdívka er í jaðri Dónetsk-borgar og hefur verið lýst að hliðinu að borginni, sem er höfuðborg samnefnds héraðs og hefur verið í höndum Rússa frá 2014. Þá innlimuðu þeir Krímskaga ólöglega og studdu aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Þegar Rússar gerðu fyrst atlögu að Avdívka í október reyndu þeir fyrst að umkringja úkraínska hermenn þar og þvinga þá til að gefast upp.

Það virðist nú hafa tekist að hluta til en rússneskir hermenn hafa á undanförnum dögum náð að sækja fram í gegnum borgina og skipt henni upp í tvo hluta, eins og sjá má á kortinu hér að neðan frá því í gær. Rússar eru sagðir hafa sótt frekar fram í dag, samhliða undanhaldi Úkraínumanna.

Undanfarna hafa bæði Oleksandr Sirskí, nýr yfirmaður herafla Úkraínu, og Rustem Umerov, varnarmálaráðherra, heimsótt hermenn í og nærri Avdívka. Sirskí sendi í vikunni eina af reyndari herdeildum Úkraínu til aðstoðar við Avdívka.

Kyiv Independent hefur eftir yfirmanni úkraínska hersins á svæðinu að Úkraínumenn hafi hörfað frá ákveðnum stöðum í suðausturhluta borgarinnar, sem er sá hluti sem er næstum því umkringdur.

Gífurlegt mannfall

Rússar hafa orðið fyrir gífurlegu mannfalli í atlögunni að Avdívka og hafa sömuleiðis misst mikinn fjölda skrið- og bryndreka. Í desember áætluðu Bandaríkjamenn að um þrettán þúsund rússneskir hermenn hefðu falli í áhlaupum á borgina og að Rússar hefðu misst rúmlega 220 skrið- og bryndreka.

Sjá einnig: Telja þúsundir Rússa hafa fallið við Avdívka

Síðan þá hafa bardagar geysað nánast linnulaust í borginni, með tilheyrandi mannfalli. Eins og áður segir hefur skotfæraskortur reynst Úkraínumönnum erfiður en Rússar hafa haft nóg af skotfærum fyrir stórskotalið eftir umfangsmiklar hergagnasendingar frá Norður-Kóreu og Íran.

Borgin hefur svo gott sem verið lögð í rúst í átökunum.

Myndband hefur birst á samfélagsmiðlum sem sýnir rússneskan fána blakta við inngangi í Avdívka.

Nokkrar vikur eru síðan Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, stóð á sama stað, þegar hann heimsótti úkraínska hermenn í borginni.

Vantar fleiri menn

Rússum hefur verið að vaxa ásmegin í austurhluta Úkraínu á undanförnum vikum og mánuðum. Þeir eiga bæði mun meira af skotfærum fyrir stórskotalið, sem skipt hefur sköpum í stríðinu í Úkraínu, og fleiri skrið- og bryndreka. Þá eiga Rússar einnig auðveldar með að fylla upp í raæðir sínar vegna mannfalls.

Forsvarsmenn úkraínska hersins hafa sagt þörf á allt að hálfri milljón hermanna, bæði til að fylla upp í raðir hersins vegna mannfalls og til að þjálfa upp nýjar sveitir fyrir næstu ár. Einnig þarf hermenn til að hvíla aðra hermenn sem hafa verið lengi á víglínunni.

Ráðamenn í Úkraínu hafa dregið það að 

Vólódímír Selenskí hefur hingað til dregið fæturna í því að boða nýja herkvaðningu en slíkt myndi kosta gífurlega fjármuni. Forsetinn sagði á blaðamannafundi í lok síðasta árs að það þyrfti sex skattgreiðendur til að borga laun eins hermanns. Úkraínumenn þyrftu því að finna þrjár milljónir skattgreiðenda til að greiða laun fimm hundruð þúsund hermanna.

Frumvarp um herkvaðningu hefur verið til umræðu á úkraínska þinginu en ekkert hefur verið samþykkt í þeim efnum.

Þá hafa pólitískar deilur í Bandaríkjunum komið niður á skotfærabirgðum Úkraínumanna en margir mánuðir eru síðan bandaríska þingið samþykkt síðast hernaðaraðstoð handa Úkraínumönnum. Á Vesturlöndum eru Bandaríkjamenn með lang mesta framleiðslugetu þegar kemur að skotfærum fyrir stórskotalið.

Sjá einnig: „Ef þið borgið ekki, ætla ég ekki að verja ykkur“

Ráðamenn í Evrópu hafa spýtt í lófana en þó framleiðsla á skotfærum í heimsálfunni hafi aukist um fjörutíu prósent á síðustu tveimur árum, annar það ekki eftirspurn Úkraínumanna.


Tengdar fréttir

Navalní sagður hafa dáið í fangelsi

Alexei Navalní, einn helsti pólitíski andstæðingur Vladimírs Pútin, forseta Rússlands er dáinn. Hann lést í fangelsi og er hann sagður hafa dáið vegna veikinda.

Yfirmaður Svartahafsflotans rekinn

Viktor Sókolóv, yfirmaður Svartahafsflota Rússlands, er sagður hafa verið rekinn úr embætti. Er það í kjölfar þess að Úkraínumenn sökktu rússnesku herskipi með drónum undan ströndum Krímskaga.

Gagnrýndi viðtalsstíl Carlson og sagðist frekar vilja Biden en Trump

Vladimir Pútín Rússlandsforseti sagði í viðtali við rússneska sjónvarpsmanninn Pavel Zarubin í gær að hann væri þakklátur Tucker Carlson fyrir viðtalið sem hann tók við forsetann á dögunum en hann hefði ekki fengið allt út úr því sem hann vildi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×