Íslenski boltinn

Leggur skóna á hilluna eftir fjór­tán tíma­bil og 246 leiki fyrir ÍA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Unnur Ýr Haraldsdóttir á að baki langan feril í Skagabúningnum.
Unnur Ýr Haraldsdóttir á að baki langan feril í Skagabúningnum. @ia_akranes

Unnur Ýr Haraldsdóttir hefur spilað sinn síðasta fótboltaleik á ferlinum en hún hefur lagt skóna á hilluna eftir langan og farsælan feril með ÍA.

Skagamenn segja frá þessum tímamótum á miðlum sínum en Unnur Ýr steig sín fyrstu skref með meistaraflokki ÍA liðsins árið 2009, þá aðeins fimmtán ára gömul.

Unnur hefur tekið þátt í samtals fjórtán tímabilum með ÍA liðinu og aðeins misst af einu heilu tímabili þrátt fyrir að vera tveggja barna móðir.

„Unnur er búinn að vera einn af lykilmönnum liðsins og mikilvægur karakter, bæði innan vallar sem utan,“ segir í færslu Skagamanna um lok ferilsins hjá Unni.

Í frétt ÍA kemur fram að Unnur spilaði 246 leiki fyrir félagið í meistaraflokki og skorað í þeim 96 mörk. Á síðasta tímabili sínu í fyrra þá skoraði hún 8 mörk í 17 leikjum og hjálpaði ÍA liðinu að vinna sæti sæti í Lengjudeildinni á ný.

Unnur kemur úr mikilli fótboltafjölskyldu en foreldrar hennar Haraldur Ingólfsson og Jónína Víglundsdóttir eru bæði goðsagnir hjá félaginu. Yngri bræður hennar hafa einnig gert góða hluti og eru enn að spila, Tryggvi Hrafn með Val og þeir Hákon Arnar og Haukur Andri með Lille í Frakklandi.

ÍA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×