Veður

Gular við­varanir vegna hvassrar norð­austan­áttar

Atli Ísleifsson skrifar
Veðurstofan gerir ráð fyrir að hvassast verði í Öræfum í dag.
Veðurstofan gerir ráð fyrir að hvassast verði í Öræfum í dag. Vísir/RAX

Lægð skammt suðaustur af landinu veldur nokkuð hvassri norðaustanátt með slyddu eða snjókomu í dag, en það rofar til á Suður- og Vesturlandi.

Gular viðvaranir taka eða hafa nú þegar tekið gildi vegna norðaustan hríðar eða hvassviðris á Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Norðurlandi eystra, Suðausturlandi og Ströndum og Norðurlandi vestra. Eru þær flestar í gildi fram á kvöld. Er spáð 13 til 23 metrum á sekúndu þar sem hvassast verður í Öræfum.

Á vef Veðurstofunnar segir að hiti á landinu í dag verði víða um eða yfir frostmarki.

„Norðan strekkingur á morgun, en hvassir vindstrengir við fjöll suðaustanlands. Þurrt sunnan heiða, annars snjókoma eða él. Léttir til um landið vestanvert seint á morgun, kólnandi veður,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Norðan 8-15 m/s og snjókoma eða él, en þurrt sunnan heiða. Léttir til á Suður- og Vesturlandi síðdegis, frost 0 til 5 stig.

Á miðvikudag: Suðvestan 3-8, en 8-13 norðvestanlands. Bjart veður og kalt, en dálítil snjókoma vestantil og dregur úr frosti.

Á fimmtudag: Hæg vestlæg átt og stöku él. Frost 0 til 10 stig, mildast syðst.

Á föstudag: Suðaustanátt og dálitlar skúrir eða él á sunnanverðu landinu, en bjartviðri norðaustanlands. Heldur hlýnandi.

Á laugardag: Suðaustanátt og rigning eða slydda, en úrkomulítið á Norður- og Norðausturlandi. Hiti 0 til 7 stig.

Á sunnudag: Suðlæg átt, úrkomulítið og milt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×